Suharto
Suharto (einnig ritað Soeharto eða umritað Muhammad Soeharto á javönsku) (8. júní 1921 – 27. janúar 2008) var annar forseti Indónesíu. Hann gegndi því embætti í 31 ár eftir að hafa steypt Sukarno af stóli árið 1967 þar til hann sagði af sér árið 1998.
Suharto | |
---|---|
Forseti Indónesíu | |
Í embætti 27. mars 1967 – 21. maí 1998 | |
Varaforseti | Listi
|
Forveri | Sukarno |
Eftirmaður | B. J. Habibie |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 8. júní 1921 Kemusuk, hollensku Austur-Indíum |
Látinn | 27. janúar 2008 (86 ára) Jakarta, Indónesíu |
Stjórnmálaflokkur | Golkar |
Maki | Siti Hartinah (g. 1947–1996) |
Börn | Siti Hardiyanti Rukmana (Tutut), Sigit Harjojudanto, Bambang Trihatmodjo, Siti Hediati Hariyadi (Titiek), Hutomo Mandala Putra (Tommy), Siti Hutami Endang Adiningsih |
Starf | Herforingi, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Suharto fæddist í smáþorpinu Kemusuk nærri borginni Yogykarta á tíma hollenskra nýlenduyfirráða í Indónesíu.[1] Hann ólst upp við fátæklegar aðstæður. Foreldrar hans skildu stuttu eftir að hann fæddist og hann var sendur á milli ýmissa fósturforeldra mestan hluta barnæsku sinnar. Á meðan á hernámi Japana stóð í seinni heimsstyrjöldinni gekk Suharto í varnarlið Indónesíumanna undir stjórn Japana. Í sjálfstæðisbaráttu Indónesíumanna gekk Suharto í hinn nýstofnaða Indónesíuher. Eftir sjálfstæði Indónesíu varð Suharto yfirhershöfðingi. Hermenn undir stjórn Suhartos kváðu þann 30. september 1965 niður valdaránstilraun af hálfu indónesíska kommúnistaflokksins.[2] Herinn stóð síðan fyrir andkommúnískum hreinsunum sem bandaríska leyniþjónustan lýsti sem „einu versta fjöldamorði tuttugustu aldarinnar“.[3] Í kjölfarið hrifsaði Suharto til sín völd frá fyrsta forseta Indónesíu, Sukarno. Hann gerðist bráðabirgðaforseti árið 1967 og var kjörinn forseti næsta ár. Hann stóð fyrir samfélagsherferð sem kölluð var „af-Sukarnovæðing“ til þess að má út orðspor forvera síns. Stuðningur við stjórn Suhartos var mikill á áttunda og níunda áratugnum. Á tíunda áratugnum ollu alræðistilburðir og spilling ríkisstjórnarinnar[4] óánægju og efnahagskreppa árið 1997 leiddi til mikilla óeirða og afsagnar Suhartos árið 1998. Suharto lést árið 2008 og fékk ríkisútför.
Deilt er um 31 árs valdatíð Suhartos bæði í Indónesíu og erlendis. Á valdatíð sinni byggði Suharto upp sterka, miðstýrða herstjórn. Geta hans til að viðhalda stöðugleika í hinni stóru og fjölbreyttu Indónesíu ásamt andkommúnískum sjónarmiðum sínum gerði honum kleift að stofna til efnahags- og hernaðarbandalaga við vesturveldin í kalda stríðinu. Mestalla forsetatíð hans var mikill hagvöxtur í Indónesíu og hröð iðnvæðing[5]
Ríkisstjórn Indónesíu er nú að velta fyrir sér hvort hún ætti að veita Suharto þjóðhetjutitil en þessar áætlanir eru mjög umdeildar.[6] Samkvæmt spillingarvísitölu Transparency International er Suharto spilltasti leiðtogi nútímasögunnar og dró sér um 15–35 milljarða Bandaríkjadollara úr ríkissjóði á valdatíð sinni.[7]
Tilvísanir
breyta- ↑ Soeharto, as related to G. Dwipayana and Ramadhan K.H. (1989). Soeharto: Pikiran, ucapan dan tindakan saya: otobiografi [Soeharto: My thoughts, words and deeds: an autobiography]. Jakarta: PT Citra Lamtoro Gung Persada.
- ↑ Friend, Theodore (2003). Indonesian Destinies. The Belknap Press of Harvard University Press, bls. 107–109; Chris Hilton (höfundur og leikstjóri) (2001). Shadowplay (sjónvarpsheimildarmynd). Vagabond Films and Hilton Cordell Productions.; Ricklefs, M.C. (1991). A History of Modern Indonesia since c. 1300. 2nd Edition. Stanford: Stanford University Press, bls. 280–283, 284, 287–290
- ↑ Mark Aarons (2007). "Justice Betrayed: Post-1945 Responses to Genocide." In David A. Blumenthal and Timothy L. H. McCormack (eds). The Legacy of Nuremberg: Civilising Influence or Institutionalised Vengeance? (International Humanitarian Law). Geymt 5 janúar 2016 í Wayback Machine Martinus Nijhoff Publishers. p. 81.
- ↑ Ignatius, Adi (11. september 2007). „Mulls Indonesia Court Ruling“. Time. Afrit af upprunalegu geymt þann 22 mars 2009. Sótt 9. ágúst 2009.; Haskin, Colin, "Suharto dead at 86"[óvirkur tengill], The Globe and Mail, 27 January 2008
- ↑ Miguel, Edward; Paul Gertler; David I. Levine (January 2005). Does Social Capital Promote Industrialization? Evidence from a Rapid Industrializer. Econometrics Software Laboratory, University of California, Berkeley.
- ↑ „Pro Kontra Soeharto Pahlawan Nasional“. Trias Politica. 26. maí 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. september 2016. Sótt 20 október 2017.
- ↑ „Suharto tops corruption rankings“. BBC News. 25. mars 2004. Sótt 4. febrúar 2006.
Fyrirrennari: Sukarno |
|
Eftirmaður: B. J. Habibie |