Strympa (franska: La Schtroumpfette) er þriðja bókin í ritröðinni um Strumpana og kom út árið 1967. Listamaðurinn Peyo teiknaði og samdi söguna í samvinnu við Yvan Delporte. Hún var jafnframt fjórða strumpabókin sem kom út á íslensku árið 1979.

Strympa var sköpuð af Kjartani til að baka vandræði.

Söguþráður breyta

Strympa er aðalsaga bókarinnar. Kjartan galdrakarl ákveður að hefna sín á strumpunum með því að skapa kvenstrump, Strympu. Við galdurinn gefur hann Strympu ýmsa slæma eiginleika á borð við öfundsýki, þrjósku, fákænsku og hirðuleysi. Útkoman verður kvenstrumpur með strítt svart hár. Hann skilur hana eftir úti í skógi, þar sem strumparnir finna hana.

Strympa veldur ýmsum vandræðum í þorpinu og í stríðnisskyni telja strumparnir henni trú um að hún sé feit og ófríð. Strympa tekur þessu illa, en Yfirstrumpur tekur málin í sínar hendur og endurskapar Strympu. Hún fær sítt, ljóst hár og yndirþokka sem veldur því að allir strumparnir verða ástfangnir. Strympa vefur þeim um fingur sér og lætur þá leggja sig í stórhættu með ýmsum uppátækjum. Að lokum tekst henni næstum að drekkja þorpinu með flóðbylgju.

Þegar upp kemst að Kjartan sé skapari Strympu er hún dregin fyrir dómstól. Snjall verjandi Strympu bendir á að Yfirstrumpi sé í raun um að kenna, þar sem hann hafi gætt hana þessari ómótstæðilegu fegurð. Strympa er sýknuð og ástsjúkir strumparnir halda áfram að berjast um hylli hennar. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að enginn friður geti ríkt í þorpinu að óbreyttu og lætur sig því hverfa. Strumparnir verða hnuggnir en ná sér þó niður á Kjartani með því að skapa ófrýnilega kerlingu og senda hana á hans fund.

Hungursneyðin er seinni saga bókarinnar og öllu styttri. Strumparnir búa sig undir veturinn með því að safna matarforða. Strax í vetrarbyrjun brennur birgðageymslan til kaldra kola og fljótlega sverfur hungrið að. Strumparnir yfirgefa þorpið í matarleit. Ferðin leiðir þá kastala þar sem vinalegur en bláfátækur höfðingi tekur á móti þeim. Strumparnir finna gullsjóð í kjallaranum og leysa þannig peningavandræði gestgjafans sem gefur þeim mikinn matarforða að launum.

Íslensk útgáfa breyta

Bókin kom út á vegum Iðunnar árið 1979 í samvinnu við danska forlagið Carlsen. Þýðingin var gefin út undir dulnefninu Strumpur.