Straumsvíkurganga var mótmælaðgerð gegn veru hersins á Keflavíkurflugvelli sem haldin var 21. maí árið 1977. Gangan var skipulögð af Samtökum herstöðvaandstæðinga. Gengið var frá bænum Straumi í námunda við álverið í Straumsvík og til Reykjavíkur.

Gangan breyta

Keflavíkurgangan 1976 hafði verið geysifjölmenn en jafnframt flókin í skipulagningu. Var því ekki fyrirhugað að endurtaka leikinn sumarið 1977. Þegar nær dró tóku ýmist félagsmenn í Samtökum herstöðvaandstæðinga að kalla eftir stórri göngu, einkum þar sem Alþýðusamband Íslands hafði gert eindregnar samþykktir í herstöðvamálinu. Var því ákveðið með skömmum fyrirvara að skipuleggja stutta göngu þar sem gengið yrði frá útjaðri höfuðborgarsvæðisins.

Upphafsstaðurinn var ekki tilviljun, þar sem áhersla á baráttu gegn alþjóðlegum auðhringjum var fyrirferðarmikil í orðræðu samtakanna. Auk hefðbundinna slagorða gegn Nató og hernum mátti því sjá skilti þar sem mengun og stóriðju var andmælt.[1] Fyrsti leggur göngunnar var að Thorsplani í Hafnarfirði þar sem slegið var upp fundi. Því næst var gengið að Rútstúni í Kópavogi þar sem aftur var fundað. Þessu næst var gengið eftir Digraneshálsi um Smiðjuveg og þaðan eftir Suðurlandsbraut. Enn var slegið upp fundi við styttu Sigurjóns Ólafssonar, Klyfjahestinn. Að lokum var haldið á Lækjartorg og endað á stórum útifundi.[2]

Ræðumenn breyta

Ýmsar ræður voru fluttar fyrir göngufólk. Björgvin Sigurðsson formaður Verkalýðsfélagsins Bjarma á Stokkseyri, Kristján Bersi Ólafsson skólastjóri, Jón Kjartansson formaður Verkalýðsfélaga Vestmannaeyja, Andri Ísaksson prófessor, Helga Sigurjónsdóttir bæjarfulltrúi, Þór Vigfússon kennari, Halldór Guðmundsson háskólanemi, Vésteinn Ólason, Bjarnfríður Leósdóttir og Pétur Gunnarsson rithöfundur fluttu öll ræður eða ávörp. Fjöldi tónlistarmanna og leikara komu sömuleiðis fram á fundunum.

Tilvísanir breyta

  1. „Straumsvíkurgangan“, Þjóðviljinn, 24. maí 1977 ([1])
  2. „Fjölmennum í gönguna“, Þjóðviljinn, 21. maí 1977 ([2])