Stopmotion tækni er notuð til að búa til kvikmyndir. Þá eru ljósmyndir notaðar, þeim er síðan skeytt saman og mynda þá hreyfimynd. Hugtakið stop motion er hægt að rita með eða án bandstriks og teljast báðar leiðirnar réttar. Ef bandstrik er notað í hugtakarituninni felur það í sér aukamerkingu sem tengist ekki inná svið kvikmynda en stop-motion þýðir: tæki sem stoppar vél sjálkrafa ef eitthvað hefur farið úrskeiðis.[1]

Mary and Gretel (1916)

Stop motion fellur undir svið kvikmyndagerðar og felur í sér tækni sem lætur líta út fyrir að kyrrstæðir hlutir hreyfist. Stop motion tækni er gjarnan notuð í hreyfimyndum sem byggja á brúðum eða fígúrum sem mótaðar eru úr leir. Fígúrurnar fá sitt eigið líf þegar hver hreyfing er brotin niður í ramma sem eru myndaðir og settir saman í runu. Þegar myndin hefur verið sett saman og sýnd virðast persónur myndarinnar hreyfast af eigin vilja.[2]

Stop motion var fyrsta tegund þrívíddarteiknimynda en til að byrja með var þessi gerð mynda aðallega notuð í atriðum bíómynda sem kölluðu á tæknibrellur. Einn frægasti stop motion karakter kvikmyndasögunnar er King Kong en í upphaflegu kvikmyndinni frá 1933 voru hreyfingar apans fræga skapaðar með stop motion tækni Stop motion 101.

Framkvæmd

breyta

Framkvæmd stop motion mynda er einföld en gífurlega tímafrek en í stuttu máli felur framkvæmdin í sér að skaparinn eða sá sem býr til myndina velur hentuga fígúru sem á að virðast hreyfast. Í flestum tilvikum er stuðst við viðar-, leir eða plastfígúrur en möguleikarnir er nær endalausir svo framarlega sem fígúran getur haldið sömu stöðu á meðan myndir eru teknar af henni. Ef skaparinn vill myndbút af fígúru sem veifar handlegg sínum hreyfir hann handlegg hennar örlítið á milli skota og tekur mynd af hverri hreyfingu. Vanalega er notast við 24 ramma á sekúndu en það felur í sér að til að fá eina sekúndu af mynd þarf 24 einstakar myndir.

Í dag er erfiðara en það var að finna vélar til að nota við gerð stop motion mynda en það er sérstaklega erfitt að finna vélar sem taka einn ramma í einu, en það er nauðsynlegt fyrir stop motion myndagerð. En sértu svo heppinn að finna vél er ekki þar með sagt að þú hafir efni á henni, því vélar með þessari tækni eru rándýrar. Mikill tími fer í það að útbúa svona myndir og eru margir sem að byrja að vinna að myndum sem þessum en gefast svo upp í miðju ferli.

Aðrar útfærslur á stop motion

breyta

Stereoscopic 3-D

breyta

Stereoscopic 3-D, betur þekkt á íslensku sem [tveggja ramma] þrívíddarmyndir. Stereoscopic 3-D er tækni sem að gerir myndunum kleift að öðlast meiri dýpt og virðast raunverulegri þegar að áhorfandinn horfir á hana. Þessi tækni hefur lítið verið notuð á stop motion myndir í gegnum kvikmyndasöguna en hefur þó verið notuð. Fyrsta 3-D stop motion myndin sem gerð var er "In tune with tomorrow" sem gerð var árið 1939, önnur er The Adventures of Sam space árið 1955 og The Incredible invasion of the 20.000 Giant robots from outer space árið 2000. Ef til vill þekktasta og vinsælasta þrívíddar stop motion myndin í fullri lengd er myndin Coraline sem kom út árið 2009 og er byggð á metsölubók Neil Gaiman. Einnig gaf fyrirtækið Niintendo út tölvuspilið Nintendo 3DS sem er með þann möguleika á að spila stop motion myndbönd árið 2011.

Go motion

breyta

Go motion er önnur leið til þess að vinna með stop motion myndir. Go motion notar tölvur saman við handafl til þess að hreyfa módelin örlítið í hverjum ramma, með því að nota handafl er verið að reyna að viðhalda „raunveruleikanum“ í myndunum. Go motion tækni var notuð í fyrsta sinn í myndinni The Empire strikes back úr Star Wars þríleiknum. Einnig var þessi tækni notuð við gerð myndarinnar the Dragonslayer og Robocop. Þessi tækni reyndist einnig mjög hjálpleg við gerð myndarinnar The Jurassic Park, þar sem tæknin var notuð við það að hreyfa risaeðlurnar í myndinni.

Stop motion á árunum 1960 – 2010

breyta

Árið 1965 gerðist það fyrst að stop motion mynd var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Myndin hét Clay (eða the Origin of Species) og var hún eftir sjálfstætt starfandi teiknarann Eliot Noyes Jr. en hann hafði töluvert endurbætt tæknina við að nota skúlptúra úr leir í stop motion kvikmyndir.

Áratug seinna eða árið 1975 vann myndin Closed Mondays eftir Will Vinton og Bob Gardiner, til Óskarsverðlauna og varð hún fyrsta myndin sem notaðist við stop motion til þess hljóta Óskarsverðlaun. Vinton þessi gerði í gegnum árin þó nokkrar fleiri stop motion kvikmyndir og voru margar hverjar tilnefndar til Óskarsverðlauna. Árið 1977 gerði Vinton svo heimildarmynd um gerð þessara stop motion kvikmynda, sem hann kallaði Claymation þar sem hann skeytti saman orðunum „clay“ og „animation“ þar sem að þessar myndir notuðust allar við leirskúlptúra. Orðið „claymation“ hefur síðan gjarnan fest við allar myndir af þeim toga.

Um sama leyti, árið 1978, í Evrópu gerði ítalski kvikmyndagerðarmaðurinn Francesco Misseri stop motion myndina Quaq Quao, en í henni notaðist Misseri við pappírsskúlptúra, svokallað „Origami“, í stað leirskúlptúra. Árið 1979 var gerð stop motion teiknimynd eftir frægri sögu Tove Janssons um Múmínálfana.

Kvikmyndarisinn Disney gerði einnig nokkrar tilraunir með stop motion tæknina. Þar ber helst að nefna stuttu þáttaröðina Mouse Mania frá árinu 1978 um teiknimyndafígúruna Mikka Mús, sem var gerð til að heiðra fimmtugsafmæli söguhetjunnar.

Árið 1980 leit fyrsta Stop motion kvikmyndin í fullri lengd dagsins ljós og var það myndin I go Pogo eftir Marc Paul Chinoy en vakti þó litla athygli. Fram að þeim tíma hafði stop motion tæknin einungis verið notuð í nokkrum atriðum í hverri mynd, til dæmis Star Wars þríleiknum, Indiana Jones: Raiders of the Lost Arc og Robocop.

Árið 1985 gerði Will Vinton stop motion kvikmynd í fullri lengd, byggða á verkum Mark Twain og hét hún The Adventures of Mark Twain og hlaut mikið lof fyrir. Skömmu seinna aðstoðaði hann Disney við gerðina á myndinni Return to Oz þar sem hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir tæknibrellur.

Tékkland hefur einnig alið af sér ófáa stop motion kvikmyndaframleiðendur. Þar eru fremstir í flokki þeir Lubomír Beneš og Vladimír Jiránek fyrir þætti sína um þá kumpána Pat & Mat eða Klaufabárðarnir, sem nutu mikilla vinsælla á Íslandi um árabil. Þættirnir urðu þó nokkuð langlífir og stóð framleiðsla þeirra í um 25 ár eða frá árinu 1979 til 2004.

Enn þann dag í dag er stuðst við stop motion tæknina í þáttaröðum og kvikmyndum. Árið 2010 var til að mynda einn heill þáttur í þáttaröðinni Community gerður með aðstoð stop motion tækninnar.

Tilvísanir

breyta
  1. The New Shorter Oxford English Dictionary, 1993.
  2. The art of stop motion.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta