Stefán frá Hvítadal
Stefán Sigurðsson (11. október 1887 – 7. mars 1933[1]) var íslenskt ljóðskáld sem er einna þekktastur undir listamannsnafninu Stefán frá Hvítadal en hann kenndi sig við Hvítadal í Saurbæ, Dalasýslu. Stefán var fæddur á Hólmavík árið 1887 og er talinn fyrsti einstaklingurinn sem fæddist þar sem þorpið Hólmavík stendur núna. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson, snikkari og kirkjusmiður, og Guðrún Jónsdóttir sem lengst bjuggu á Felli í Kollafirði.
Fyrstu æviárin dvaldi Stefán að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði á Ströndum en flutti síðan að Hvítadal í Dalasýslu. Hann fór síðan ungur til Reykjavíkur, vann sem prentari, en átti við veikindi að stríða og missti annan fótinn. Hann kvæntist þar Sigríði Jónsdóttur. Með henni átti hann nokkur börn þar á meðal Erlu. Í Reykjavík samdi hann ljóðið um elstu dóttur sína Erlu, "Erla góða Erla ég á að vagga þér" þá bjó hann að Laufásvegi 9. Hann fluttist síðar aftur í Dalina og bjó þar til æviloka. Stefán lést árið 1933. Hann er jarðaður í Staðarhólskirkjugarði
Stefán var berklasjúklingur, hann var lengi veikur og lá á sjúkrahúsi í Noregi árið 1914. Þegar hann hefur legið veikur í allavega 2 mánuði skrifar hann vini sínum Erlendi bréf um að dagar hans séu taldir og að hann sé tilbúinn að kveðja þennan heim. En svo kynnist Stefán hjúkrunarkonu á spítalanum, hann verður yfir sig ástfanginn af henni og í kjölfarið fer honum að batna. Stefán var hjúkrunarkonunni Mathilde ævinlega þakklátur og skírði dóttur sína Matthildi eftir henni árið 1922.
Seinna birtust kvæði eftir hann í blöðum og tímaritum, þar á meðal ljóðaflokkurinn Anno Domini 1930 í Perlum það ár.
Ivar Orgland skrifaði ævisögu Stefáns. Kom hún út í tveimur bindum, Stefán frá Hvítadal. Maðurinn og skáldið og Stefán frá Hvítadal og Noregur: rannsókn á norskum áhrifum á íslenskt ljóðskáld á 20. öld. Fyrra bindið kom út í íslenskri þýðingu Baldurs Jónssonar og Jóhönnu Jóhannsdóttur árið 1962. Seinna bindið þýddi Steindór Steindórsson frá Hlöðum og kom það út á íslensku árið 1990.
Ljóðabækur Stefáns
breyta- Söngvar förumannsins (1918)
- Óður einyrkjans (1921)
- Heilög kirkja (1924)
- Helsingjar (1927)
- Anno Domini (1930)