Spænska kvennalandsliðið í knattspyrnu

Spænska kvennalandsliðið í knattspyrnu (spænska: Selección Española de Fútbol Femenina) er fulltrúi Spánar á alþjóðlegum vettvangi. Árið 2023 varð liðið heimsmeistari í fyrsta sinn á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Þar með varð Spánn annað landið í sögunni, ásamt Þýskalandi til að vinna heimsmeistaratitil í bæði karla- og kvennaflokki.

Spænska kvennalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
GælunafnLa Roja (Hið rauða)
ÍþróttasambandSpænska knattspyrnusambandið
ÁlfusambandUEFA
ÞjálfariMontserrat Tomé
FyrirliðiIrene Paredes
Most capsAlexia Putellas (115)
MarkahæsturJennifer Hermoso (55)
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
1
1 (desember 2023-)
19 (mars 1998)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
(óopinber) 3-3 á móti Portúgal, 21. feb., 1971); (opinber) 0-1 á móti Portúgal, 5. feb., 1983
Stærsti sigur
10-0 á móti Slóvenía, 20. mars, 1994
Mesta tap
0-8 á móti Svíþjóð, 2. júní, 1996

Knattspyrna kvenna á Spáni hófst sem hálfgerð neðanjarðarstarfsemi á árunum í kringum 1970, enda álitu bæði spænska knattspyrnusambandið og fasistastjórn Francos að einungis karlmenn skyldu iðka íþróttina. Meðal raka sem notuð voru gegn kvennabolta var að konum færi illa að keppa í stuttbuxum og fótboltatreyjum.

Óopinbert landslið var stofnað og lék sinn fyrsta leik gegn Portúgölum í febrúar 1971. Leikmönnum var ekki heimilt að bera merki knattspyrnusambandsins og dómarinn var heldur ekki í formlegum búningi. Andstaða knattspyrnusambandsins hélt áfram og árið 1981 kom það því til leiðar að liðinu var bannað að mæta á Mundialito (litlu heimsmeistarakeppnina) sem var óopinbert heimsmeistaramót í kvennaflokki. Ári síðar stóð til að halda sambærilegt mót á Spáni en knattspyrnusambandið stóð í vegi fyrir því. Í kjölfarið lognaðist þetta óopinbera landslið útaf.

Formlegt landslið

breyta

Í kjölfar þess að stjórn fasista lét af völdum á Spáni ákvað knattspyrnusambandið að endurskoða afstöðu sína til kvennafótbolta síðla árs 1980. Bikarkeppni var komið á laggirnar fyrir félagslið og landslið stofnað sem lék í fyrsta sinn í febrúar árið 1983. Liðið tók þátt í forkeppni EM 1987 og tókst að vinna einn leik og gera eitt jafntefli í sex viðureignum. Í forkeppni næstu móta hafnaði liðið yfirleitt á botni síns riðils og stóð sterkari knattspyrnuliðum álfunnar talsvert að baki.

Talsverð batamerki mátti sjá á spænska liðinu í forkeppni EM 1995 þar sem það hafnaði í öðru sæti síns riðils, stigi á eftir Englendingum sem komust áfram. Í þeirri forkeppni vannst 17:0 sigur á Slóvenum sem enn í dag er stærsti sigur Spánverja. Fjölgun keppnisliða á EM kvenna í átta árið 1997 gagnaðist spænska liðinu vel. Það komst í fyrsta sinn í úrslitakeppnina sem fram fór í Svíþjóð. Þar gerðu spænsku stúlkurnar 1:1 jafntefli við Frakka, töpuðu fyrir heimakonum en unnu loks Rússa 1:0. Það dugði í undanúrslit þar sem liðið tapaði 2:1 fyrir Ítölum. Ángeles Parejo skoraði öll þrjú mörk Spánar í keppninni.

Bið varð í Spánn tæki aftur þátt í úrslitakeppni stórmóts. Á næstu þremur Evrópumótum mátti liðið sitja heima og mætti ekki aftur á stóra sviðið fyrr en 2013. Liðið komst ekki á HM fyrr en í sjöundu tilraun árið 2015 og á Ólympíuleikana hefur liðið aldrei komist.

Mjakast upp töfluna

breyta

Spánn hefur verið fastagestur á HM og EM frá 2013 sem skýrist bæði af fjölgun þátttökuliða og því að liðið hefur verið að eflast. Stórliðin í spænska karlaboltanum sem lengi vel létu sig kvennabolta engu varða hafa í seinni tíð reynt að efla lið sín og hefur Barcelona verið í hópi sterkustu kvennaliða Evrópu. Á EM 2013, 2017 og 2022 komst spænska liðið alltaf upp úr riðlakeppni en féll úr leik í fjórðungsúrslitum. Fyrst gegn Norðmönnum, þá gegn Austurríki í vítaspyrnukeppni og loks gegn heimsmeistaraefnum Englendinga eftir framlengingu.

Á HM í Kanada 2015 tapaði Spánn tveimur leikjum og gerði eitt jafntefli, sem þýddi neðsta sætið í riðlinum á eftir Kosta Ríka sem var meira en tuttugu sætum neðar á heimslistanum. Í Frakklandi fjórum árum síðar tapaði Spánn fyrir sterku liði Þjóðverja, sigraði Suður-Afríkukonur og gerði jafntefli við Kína. Það tryggði leik í 16-liða úrsltium gegn gríðarsterku bandarísku liði. Þær bandarísku unnu 2:1 og urðu að lokum heimsmeistarar.

Óvæntir heimsmeistarar

breyta

Spánverjar voru í sjötta sæti heimslista FIFA fyrir HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Stórsigrar í fyrstu tveimur leikjunum á móti Kosta Ríka og Sambíu þýddu að spænska liðið var komið áfram og gat leyft sér að slaka á klónni á móti Japan í lokaleiknum. Asísku stúlkurnar unnu 4:0 sigur og eru Spánverjar eina heimsmeistaralið sögunnar til að vinna eftir að hafa fengið slíkan skell fyrr í keppninni.

Sviss, Holland og Svíþjóð voru mótherjar Spánar á leiðinni í úrslitaleikinn á móti Englandi. Úrslitaleikurinn vannst 2:0 og varð fögnuður spænska liðsins mikill, þótt framganga formanns spænska knattspyrnusambandsins hafi þótt varpa skugga á sigurhátíðina þar sem hann rak fyrirliða liðsins rembingskoss sem vakti hörð viðbrögð.