Smábátahöfn
Smábátahöfn er höfn með legum og annarri aðstöðu fyrir litla báta og lystisnekkjur. Smábátahafnir geta staðið einar sér eða verið hluti af stærri höfn. Þær er að finna alls staðar þar sem bátar eru í notkun, eins og á strandsvæðum, vötnum, ám og við skipaskurði. Legur geta verið við ból, staura eða stæði við flotbryggjur. Dæmigerðir innviðir í smábátahöfnum eru vatnsleiðslur, rafmagnsleiðslur, olíudælur, uppsátur, sjósetningarrampar og kranar. Í mörgum smábátahöfnum starfa siglingafélög sem bjóða upp á meiri þjónustu eins og aðgang að salerni, þvottahúsi, sturtum, eldunar- og hvíldaraðstöðu, veitingastað o.fl. Við stærri smábátahafnir er oft að finna sérhæfð þjónustufyrirtæki eins og seglagerð, bátaverkstæði og bátaverslun.
Aðgangur að þjónustu í smábátahöfnum er yfirleitt gegn gjaldi sem er mjög mishátt eftir því hvar höfnin er staðsett í heiminum og innan hvers lands. Smábátahafnir eru reknar af sveitarfélögum, hafnarsamlögum, félagasamtökum eða einkafyrirtækjum eftir atvikum. Margar smábátahafnir eru með sérstakar gjaldskrár fyrir skammtímalegu og langlegu. Í sumum höfnum er langur biðlisti eftir föstu stæði og getur tekið mörg ár að komast að.