Skutulsfjörður
Skutulsfjörður er vestasti fjörðurinn í Ísafjarðardjúpi. Kaupstaðurinn Ísafjörður stendur við fjörðinn. Tveir megindalir ganga inn úr Skutulsfirði, Engidalur og Tungudalur, og skilur fjallið Kubbi þá að. Yst að norðanverðu í Engidal er kirkjugarður Ísfirðinga. Um Engidalinn rennur áin Langá. Golfvöllur og skíðasvæði er í Tungudal en úr honum eru Vestfjarðagöng grafin yfir í Botnsdal í Súgandafirði og Breiðdal í Önundarfirði. Upp úr Tungudal ganga Dagverðardalur eða Dögurðardalur, sem segir frá í Gísla sögu, en þaðan lá áður þjóðvegurinn suður yfir Breiðadals- og Botnsheiði. Enn fremur liggur Seljalandsdalur upp af Skutulsfirði en þar var áður aðalskíðasvæði Ísfirðinga.
Fjallið aftur af eyrinni er nefnt Hlíðarfjall. Um 4/5 upp það er hilla sem nefnd er Gleiðarhjalli. Fjallið á móti eyrinni er nefnt Ernir. Eru á því stórar hvilftir og er sú ytri nefnd Naustahvilft en sú innri Kirkjubólshvilft og er sú ytri vinsæl gönguleið.
Árið 1994 féll snjóflóð í Seljalands- og Tungudali og eyðilögðust skíðamannvirki og sumarbústaðir.
Í fornu máli hét hann Skutilsfjörður. Samkvæmt landnámu gaf Helgi Hrólfsson, frændi Helga magra á Akureyri, honum nafn en hann fann þar „skutil í flæðarmáli“.
Heimildir
breyta- Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson (1980). Landið þitt Ísland, A-G. Örn og Örlygur.
- Steindór Steindórsson frá Hlöðum (höfundur frumtexta), Örlygur Hálfdanarson (ritstj.) (2004). Vegahandbókin: ferðahandbókin þín. Stöng. ISBN 9979956933.