Sjá einning Seljalandsdalur í Álftafirði

Seljalandsdalur er dalur í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp. Dalurinn er vinsæll til útivistar og hefur verið í meira en öld. Einkum er þar löng saga skíðaiðkunar, en þar eru einnig gönguleiðir, reiðhjólabrautir og svæði til vélsleðaaksturs. Í dalnum er skíðagöngusvæði Ísafjarðarbæjar, sem með Tungudal myndar skíðavæðið Dalina tvo.

Skíðagönguhús á Seljalandsdal.

Dalurinn liggur allur 200 metra eða meira yfir sjó, og er öðrum dölum ólíkur því leyti að fjöll liggja aðeins að honum að norðanverðu, en til suðurs er hann aflíðandi niður að brún niður í Tungudal[1]. Að dalnum liggja Sandfell og Miðfell til vesturs. Upp úr dalnum liggur gönguleið yfir Þjófaskörð yfir í Hnífsdal. Úr dalnum liggur Buná sem fellur í stórum fossum niður í Tungudal.

Nokkur snjóflóðahætta er í dalnum og hafa snjóflóð eyðilagt skíðalyftur og/eða hús að minnsta kosti þrisvar sinnum, árin 1953[2], 1994 og 1999[3]. Reistur hefur verið mikill snjóflóðavarnargarður til að verja byggð í Múlalandshverfi og eftir seinna flóðið var ákveðið að nýjar skíðalyftur skyldu ekki reistar í Seljalandsdal heldur Tungudal.

Saga skíðaiðkunar breyta

Löng saga er um skíðaiðkun á Seljalandsdal. Fyrsti skíðaskálinn sem reistur var á Seljalandsdal hét Skíðheimar. Hann var reistur árið 1928[3] eða 1930[1], hús með torfveggjum og skarsúð. Sá skáli var rifinn um 1940[3]. Árið 1939 reisti Skíðafélag Ísafjarðar annan skála á dalnum, timburhús með sal, tvö herbergi, skíðageymslu og eldhús. Sá eyðilagðist í snjóflóði 28. mars 1953[2]. Síðar var nýtt hús, Skíðheimar II, reist, sem stendur þar enn.

 
Seljalandsdalur 1992. Þrjár skíðalyftur sjást á myndinni sem allar eyðilögðust í snjóflóðinu 1994.

Reistar voru á Seljalandsdal fjórar toglyftur, Sú lengsta, sem náði upp á Gullhól, var 1200 m löng. Efri lyftan var 700 m löng og náði upp í skál við topp fjallsins[4]. Barnalyfta, 200 m löng, var einnig í fjallinu. Sú fjórða bættist við árið 1988, 700 m löng með 200 m fallhæð[5].

Annan dag páska, árið 1994 féll mjög stórt snjóflóð yfir skíðasvæðið, fram af Seljalandsmúla og niður yfir sumarbústaðalandið í Tungudal. Skíðaskáli, fjórar lyftur og ýmsir kofar og tæki eyðilögðust á Seljalandsdal. Í Tungudal eyðilögðust 40 sumarbústaðir. Þar lést einn maður og kona slasaðist mikið.

Í kjölfarið, strax árið eftir, var ný lyfta reist á dalnum. Efri lyftan var í þann mund að vera tilbúin[6] þegar annað stórt flóð yfir skíðasvæðið[3], 13. mars 1999. Eftir þetta var skíðasvæðið flutt inn í Tungudal, meðal annars vegna þess að nýjar lyftur á sama stað myndu ekki fást tryggðar[6]. Skíðaskálarnir Skíðheimar II og skáli fyrir skíðagöngufólk á Háubrún sunnan Bunár eru einu mannvirkin sem eftir standa á Seljalandsdal fyrir utan efstu staura elstu lyftanna sem enn standa.

Svæðið er eftir sem áður vinsælt meðal fjallaskíðafólks sem gengur upp og skíðar niður.

Núverandi notkun breyta

Skíðaganga breyta

 
Keppt í skíðagöngu á Seljalandsdal, á Skíðamóti Íslands 2019

Á Seljalandsdal er skíðagöngusvæði Ísfirðinga og með skíðalyftunum í Tungudal rekið undir nafninu Dalirnir tveir. Á Seljalandsdal stendur hús með afgreiðslu, tímatökuturni, veitingasal og tækjaskúr. Troðnar eru göngubrautir daglega, 3–15 km. langar. Fossavatnsgangan, stærsta skíðamót landsins, hefst og lýkur á Seljalandsdal.

Fjallaskíði breyta

Brekkurnar þar sem áður voru lyftur eru snjósælar og því vinsælar til fjallaskíðunar.

Vélsleðaakstur breyta

 
Tveir ökumenn á vélsleðum á Seljalandsdal. Þjófaskörð í baksýn.

Vinsælt er að hefja vélsleðaferðir frá Seljalandsdal. Frá dalnum er bæði hægt að keyra upp hlíðina eða fara yfir á Breiðadals- og Botnsheiðar og þaðan í nærliggjandi firði.

Reiðhjól breyta

Hjólreiðadeild íþróttafélagsins Vestra hefur gert margar brautir á Seljalandsdal. Bera brautirnar nöfn eins og Hrossið og Bunan, hvort tveggja vísanir í örnefni á svæðinu.

Gönguleiðir breyta

Úr Seljalandsdal er gönguleið yfir Þjófaskörð yfir í Hnífsdal. Þaðan er bæði hægt að fara niður í Hnífsdal og eða halda áfram yfir í Syðridal í Bolungarvík.

Róla breyta

Róla er upp í svokallaðri Hestaskál. Hún var sett upp sumarið 2022 hefur hún notið vinsælda meðal fjallgöngufólks.

Heimildir breyta

  1. 1,0 1,1 Hannibal Valdimarsson (1945). Paradís skíðamannanna: Seljalandsdalur.
  2. 2,0 2,1 Þór, Jón Þ. (1990). Saga Ísafjarðar og Eyrarhressp hins forna: I-IV. Sögufélag Ísfirðinga. OCLC 866461484.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Starfsmenn snjóflóðavarna Veðurstofu Íslands (Mars 2003). „https://www.vedur.is/gogn/snjoflod/haettumat/is/is_annall.pdf“ (PDF). Veðurstofa Íslands. Sótt febrúar 2021.
  4. „Íþróttablaðið - 1. tölublað (01.02.1983) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 27. febrúar 2021.
  5. „Ísfirðingur - 5. tölublað (21.10.1988) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 27. febrúar 2021.
  6. 6,0 6,1 „Morgunblaðið - 62. tölublað (16.03.1999) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 27. febrúar 2021.