Húsráð
Húsráð eru ráð sem eru misvel til þess fallin að teljast til ráða. Sum húsráð eru þó þannig að þau eru reynsla kynslóðanna sem hafa fylgt ættum eða þjóðum mann fram af manni. Stundum er erfitt að gera upp á milli bábilju og raunverulegra ráða, því sum húsráð eru það furðuleg að þau teljast frekar til fyndni en annars. En stundum fer allt saman, ráð, fyndni og virkni. Allt fer það þó auðvitað eftir hverju ráði fyrir sig og raunverulegum afleiðingum þess.
Nokkur húsráð
breyta- Í Lækningabók handa alþýðu á Íslandi eptir J. Jónassen, sem út kom 1884, stendur: Mjög mörg húsráð eru til við blóðnösum, og gagna þau opt; þannig er eitt að láta kaldan vatnsdúk á milli fótanna á karlmanni.
- Heimkoma, öðru nafni áma, var tíður kvilli fyrrum. Ánamaðkabakstur þótti gott ráð við henni. Hann var svo gerður, að tínd var hrúga af ánamöðkum, látin í smokk af sauðsvörtu eða gráu vaðmáli og þetta svo bundið við bólguna og látið sitja þrjár nætur. Þá átti að taka smokkinn og brenna hann með möðkunum að húsabaki. - Þetta húsráð er mjög gamalt, og er því vafalaust að nafnið ánamaðkur er afbökun, hann heitir að réttu lagi ámumaðkur, vegna þess að hann var notaður til þess að lækna ámuna.
- Það að hella hvítvíni yfir þar sem rauðvín hefur farið í teppi telst til húsráða. Er þetta gert svo ekki myndist blettur.
- Á tímum Hippókratesar var það húsráð að mylja pílvíðarbörk og blanda við heitt vatn til að draga úr gigtarverk og hita. Þetta húsráð varð síðan grunnurinn að aspiríni.
- Steinolía þótti áður fyrr ágætis meðal við brunasárum og frostbólgu á höndum og fótum.
- Ef saltblettir hverfa ekki af leðurskóm má nudda blettina með sterku kaffi eða blanda saman hálfri teskeið af ediki og einum bolla af vatni og nudda blettina með þeim vökva. Látið þorna.
- Gamansamt húsráð við blóðnösum: Láttu nefið slota vel ofan fyrir búkinn, uns hjartað stöðvast. [1]
- Það er gott ráð að þvo gömul olíumálverk úr heitri mjólk, sem þurrkað er af, þegar í stað.
- Munið að blómkál helst hvítt í suðu ef dálítið af hveiti er sett í vatnið.
- Munið að mjólk brennur ekki við, ef maður sýður fyrst vatn í pottinum, áður en hún er soðin.
- Það er gott húsráð til að ná salti af skóm að þvo þá upp úr svörtu kaffi. Þá hverfur saltið með öllu. [2]