Sirimavo Bandaranaike
Sirima Ratwatte Dias Bandaranaike (17. apríl 1916 – 10. október 2000), yfirleitt kölluð Sirimavo Bandaranaike, var srílanskur stjórnmálamaður sem var þrisvar sinnum forsætisráðherra Srí Lanka. Hún var fyrsti kvenkyns forsætisráðherra í heimi.
Sirimavo Bandaranaike | |
---|---|
සිරිමාවෝ බණ්ඩාරනායක | |
Forsætisráðherra Srí Lanka | |
Í embætti 21. júní 1960 – 27. mars 1965 | |
Þjóðhöfðingi | Elísabet 2. |
Landstjóri | Oliver Goonetilleke William Gopallawa |
Forveri | Dudley Senanayake |
Eftirmaður | Dudley Senanayake |
Í embætti 29. maí 1970 – 23. júlí 1977 | |
Þjóðhöfðingi | Elísabet 2. (1970–1972) |
Forseti | William Gopallawa (1972–1977) |
Landstjóri | William Gopallawa (1970–1972) |
Forveri | Dudley Senanayake |
Eftirmaður | J. R. Jayewardene |
Í embætti 14. nóvember 1994 – 10. ágúst 2000 | |
Forseti | Chandrika Kumaratunga |
Forveri | Chandrika Kumaratunga |
Eftirmaður | Ratnasiri Wickremanayake |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 17. apríl 1916 Ratnapura, Ceylon |
Látin | 10. október 2000 (84 ára) Kadawatha, Srí Lanka |
Þjóðerni | Srílönsk |
Stjórnmálaflokkur | Frelsisflokkurinn |
Maki | Solomon Bandaranaike (g. 1940; d. 1959) |
Trúarbrögð | Búddismi |
Börn | 3 |
Æviágrip
breytaSirimavo Bandaranaike fæddist árið 1916 til einnar auðugustu fjölskyldu Srí Lanka, sem þá hét Ceylon og var undir breskum yfirráðum. Hún gekk í búddískan klausturskóla sem barn og giftist árið 1940 að undirlagi foreldra sinna Solomon Bandaranaike, einum helsta stjórnmálaleiðtoga eyjunnar. Solomon stofnaði nýjan vinstriflokk undir nafninu Frelsisflokkurinn og var útnefndur forsætisráðherra landsins fyrir flokkinn árið 1956.[1]
Árið 1959 var Solomon myrtur af búddískum öfgamanni. Í kjölfarið tók Sirimavo við formennsku í frelsisflokknum og leiddi hann til afgerandi sigurs í kosningum sem haldnar voru árið 1960. Bandaranaike varð þar með fyrst kvenna til að vera kjörin forsætisráðherra ríkis síns.[2] Sem forsætisráðherra tók Bandaranaike upp róttæka vinstristefnu og lét lýsa því yfir í stjórnarskrá landsins að Srí Lanka væri sósíalískt lýðveldi.[3] Hún þjóðnýtti ýmis einkafyrirtæki, bannaði vöruinnflutning til eyjunnar, lokaði sendiráði Ísraels á Srí Lanka og bannaði bandarískum friðargæslusveitum að hafa starfsemi á eyjunni.[1]
Uppreisn var gerð gegn Bandaranaike snemma á valdatíð hennar en henni tókst að kæfa hana niður.[4] Hún sat sem forsætisráðherra til ársins 1965, en þá tapaði flokkur hennar þingkosningum vegna efnahagsörðugleika. Bandaranaike tókst að komast til valda á ný þegar flokksbandalag hennar vann kosningasigur árið 1970. Stefnuskrá hennar í aðdraganda kosningarinnar var mjög róttæk og kvað m. a. á um að bankar Srí Lanka skyldu þjóðnýttir og að landið myndi viðhalda ævarandi hlutleysi.[5]
Frelsisflokkurinn tapaði þingkosningum árið 1977 og Bandaranaike varð aftur leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Árið 1980 sakaði srílanska þingið Bandaranaike um að hafa misnotað vald sitt og vék henni því úr þingsæti sínu. Jafnframt var Bandaranaike svipt pólitískum réttindum sínum og henni bannað að gegna opinberu embætti í sjö ár. Eftir að þetta bann rann út bauð Bandaranaike sig fram til forseta í kosningum árið 1988 en bað ósigur.[1] Árið áður hafði stjórnarskrá landsins verið breytt svo að völd forsetans jukust gífurlega á kostnað forsætisráðherrans.
Dóttir Bandaranaike, Chandrika Kumaratunga, varð formaður Frelsisflokksins árið 1993 og var kjörin forseti Srí Lanka næsta ár. Kumaratunga útnefndi móður sína sem forsætisráðherra og þar með var komin upp sú fordæmalausa staða að þjóðhöfðingi og ríkisstjórnarleiðtogi landsins væru mæðgur. Forsætisráðherraembættið var á þessum tíma orðið valdalítið og að mestu táknrænt, en Bandaranaike naut þó enn talsverðra áhrifa innan Frelsisflokksins. Kumaratunga leysti móður sína úr embætti sökum aldurs í ágúst árið 2000[6] og Bandaranaike lést aðeins tveimur mánuðum síðar.[1]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Fyrsta konan í embætti forsætisráðherra látin“. Morgunblaðið. 11. október 2000. Sótt 16. maí 2019.
- ↑ „Fyrsti kvenforsætisráðherra í heimi“. Melkorka. 1. september 1960. Sótt 16. maí 2019.
- ↑ Lína H. Blöndal (1. desember 1999). „Sirimavo Bandaranaike: Forsætisráðherrann á Sri Lanka“. Vera. Sótt 16. maí 2019.
- ↑ Jörgen Bast (8. febrúar 1962). „„Sterka ekkjan" á Ceylon“. Tíminn. Sótt 16. maí 2019.
- ↑ „Grátandi ekkjan verður forsætisráðherra í annað sinn“. Tíminn. 3. júní 1970. Sótt 16. maí 2019.
- ↑ „Forsætisráðherra Sri Lanka hættir“. Dagur. 11. ágúst 2000. Sótt 16. maí 2019.
Fyrirrennari: Dudley Senanayake |
|
Eftirmaður: Dudley Senanayake | |||
Fyrirrennari: Dudley Senanayake |
|
Eftirmaður: J. R. Jayewardene | |||
Fyrirrennari: Chandrika Kumaratunga |
|
Eftirmaður: Ratnasiri Wickremanayake |