Ormur Jónsson Svínfellingur

Ormur Jónsson Svínfellingur (d. 5. september 1241) var íslenskur goðorðsmaður og höfðingi á 13. öld.

Hann var sonur Jóns Sigmundssonar (d. 14. júlí 1212) á Valþjófsstað og síðar Svínafelli og konu hans, Þóru eldri (d. 1203), dóttur Guðmundar gríss Ámundasonar. Hálfbræður hans voru Brandur ábóti í Þykkvabæ og biskup á Hólum og Þórarinn goðorðsmaður (d. 1239), faðir Þorvarðar og Odds Þórarinssona. Ormur var sagður vinsælastur af öllum óvígðum höfðingjum á þeim tíma því að hann leiddi hjá sér þann hernað og óöld er flestir hinna vöfðust í en hélt hlut sínum óskertum.

Ormur bjó fyrst á Svínafelli í Öræfum en síðar í Skál á Síðu. Kona hans var Álfheiður Njálsdóttir. Synir þeirra voru Sæmundur Ormsson (um 1227 - 13. apríl 1252, sem giftist Ingunni dóttur Sturlu Sighvatssonar, og Guðmundur Ormsson (um 1235 - 13. apríl 1252). Ögmundur Digur-Helgason í Kirkjubæ, sem giftur var föðursystur þeirra, lét taka þá af lífi og segir frá þeim atburðum í Svínfellingasögu.

Einnig áttu þau soninn Orm, sem fæddist eftir lát föður síns og varð síðar höfðingi Svínfellinga, og dótturina Þóru, sem giftist Kráki Tómassyni af ætt Seldæla, dóttursyni Þórðar Sturlusonar. Laundóttir Orms var Oddný, sem giftist Finnbirni, syni Digur-Helga, hirðmanni og umboðsmanni Hákonar gamla. Hann lést af sárum sem hann hlaut á Þverárfundi.