Ýmis afbrigði shōgi (japanskrar skákar) hafa þróast í gegnum tíðina, en þau spanna allt frá stærstu skákleikjum sem nokkru sinni hafa verið fundnir upp til þeirra allra minnstu. Fáein þessara afbrigða eru enn spiluð nokkuð, en ekkert þeirra er þó nærri eins vinsælt og shōgi sjálft.

Taka skal fram að í flestum þessara afbrigða er ekki leyfilegt að sleppa leikmönnum aftur inn á borðið eftir að þeir hafa verið drepnir, en þetta er oft talið mesta sérkenni shōgi. Þessi afbrigði virka því strategískt líkari öðrum skákleikjum, og borðið gisnar smátt og smátt eftir því sem fleiri taflmenn eru drepnir.

Forverar nútímashōgi breyta

Einhvers konar skák hafði örugglega komist til Japan á 9. öld, ef ekki fyrr, en elsta varðveitta japanska lýsingin á skákreglum er frá 12. öld, þ.e. frá Heian-tímabilinu. Því miður gefur þessi lýsing ekki nægilega skýra mynd af reglum leiksins, en það hefur þó ekki aftrað fólki frá því að reyna að endurgera þessa fornu útgáfu shōgi, sem venjulega er kölluð Heian shōgi (平安将棋). Taflmennirnir hreyfðu sig eins og í nútímashōgi, en það var enginn hrókur eða biskup. Borðið virðist hafa verið 9×8 eða 8×8 reitir. Uppröðunin er ekki þekkt, en hún var sennilegast eins og nú, nema hvað hrókinn og biskupinn vantaði, og ef borðið var 8×8 reitir hefur aðeins verið einn gullhershöfðingi. Peðunum gæti mögulega hafa verið stillt upp í annarri röð, frekar en þeirri þriðju. Hægt er að segja með vissu að ekki var leyft að setja taflmenn aftur inn á borðið.

Á 16. öld var leikurinn orðinn líkari því sem nú gerist: hann var spilaður á 9×9 reita borði með sömu uppstillingu og í nútímashōgi, nema hvað aukataflmaður (svokallaður drukkinn fíll) stóð beint fyrir framan kónginn. Þessi útgáfa leiksins er þekkt sem shō shōgi (小将棋), sem þýðir „lítið shōgi“. (Þótt 9×9 reita borð kunni að virðast annað en „lítið“, var þetta minnsta shōgiútgáfa þess tíma.) Keisarinn Go-Nara, sem ríkti 1526-1557, tók drukkna fílinn úr leiknum, og talið er að um svipað leyti hafi komið til sögunnar sú regla að setja mætti taflmenn aftur inn á borðið eftir að þeir væru drepnir. Þannig varð til það „venjulega“ shōgi sem spilað er nú.

Stærri afbrigði breyta

Til eru allnokkur shōgiafbrigði sem spiluð eru á stærri borðum en 9×9. Þessi afbrigði eru öll frekar gömul, og voru líklegast öll spiluð án endurkomu taflmanna inn á borðið. Talið er að þau stærstu (dai shōgi og upp úr) hafi aldrei verið almennt mikið spiluð, heldur fundu menn þá upp til gamans, til að slá um sig og sýna snilli sína. Leikir allt að Tenjiku dai shōgi virðast þó vel spilanlegir, ef tími er nægur.

Sama 12. aldar heimildin og lýsti Heian shōgi lýsir einnig afbrigði sem leikið var á 13×13 reita borði, sem nú er nefnt Heian dai shōgi (平安大将棋). Reglur þessa leiks hafa ekki verið varðveittar í heild sinni frekar en minni útgáfu sama tíma.

Vinsælasta stóra shōgiafbrigðið er chū shōgi (中将棋), sem leikið er á 12×12 reita borði. Nafnið merkir mið-shōgi, og er leikurinn oft kallaður middle shogi á ensku. Chū shōgi var fundið upp eigi síðar en á 14. öld (til eru eldri vísanir í það, en ekki er vitað hvort átt var við leikinn í núverandi mynd). Chū shōgi er þekktast fyrir mjög öflugan taflmann sem kallast ljón og hreyfist eins og kóngur, en tvisvar í hverri umferð. Leikurinn var enn algengur í Japan í byrjun 20. aldar, en hefur nú að mestu dáið út þar. Hann hefur þó dregið að sér fylgjendur á Vesturlöndum. Aðalritverkið um chū shōgi á ensku er bókin The Middle Shogi Manual eftir George Hodges.

Önnur miðaldashōgiafbrigði voru wa shōgi (11×11, hugsanlega var leyft að sleppa taflmönnum aftur inn á), dai shōgi (大将棋, „stórt shōgi“, 15×15), tenjiku shogi (天竺大将棋, „stórt indverskt shōgi“, þótt sennilega sé meint að leikurinn sé framandi, ekki indverskur í raun, 16×16), dai dai shōgi (大大将棋, „stórt, stórt shōgi“, 17×17), maka dai dai shōgi (摩訶大大将棋, „gríðarstórt shōgi“, 19×19), og tai shōgi (泰将棋, „víðáttumikið shōgi“, 25×25). Þessi afbrigði eru ekki yngri en frá 17. öld. Tai shōgi var lengi talið heimsins stærsti skákleikur, en árið 1997 fundust heimildir um enn stærra shōgiafbrigði, taikyoku shōgi (大局将棋, „ultimate shōgi“, 36×36).

Nýlegasta stóra shōgiafbrigðið er kō shōgi (廣将棋 eða 廣象棋 „breitt shōgi“, 19×19), sem er leikið á go-borði og inniheldur hugmyndir úr kínverskri skák. Það var fundið upp í byrjun 18. aldar. Kō shōgi er óvenjulegt að því leyti, að taflmennirnir eru mjög háðir hvor öðrum og reglur um stöðuhækkun er flóknar.

Nútímaafbrigði breyta

Tori shōgi (禽将棋, „fuglashōgi“) var fundið upp í lok 18. aldar. Leikurinn er spilaður á 7×7 reita borði og leyfilegt er að sleppa taflmönnum aftur inn á. Tori shōgi er meðal algengari shōgiaafbrigða.

Annað tiltölulega vinsælt shōgiafbrigði er minishōgi (5五将棋), sem er spilað á 5×5 reita borði, en hefur að öðru leyti sömu reglur og venjulegt shōgi. Judkins shōgi er svipað, en er spilað á 6×6 reita borði.

Sem dæmi um fleiri nútímashōgiafbrigði má nefna Kyōto shōgi (京都将棋, 5×5), fallbyssushōgi (9×9), míkróshōgi (4×5) og yari shōgi Christians Freeling (7×9).

Tengt efni breyta

Tenglar breyta