Sagnarandi er fyrirbæri sem er vel þekkt í íslenskri þjóðtrú. Sagnarandi segir eiganda sínum allt sem hann vil vita og talar helst í rosaveðri og austanátt.

Sá sem vill fá sér sagnaranda þarf að fara afsíðis frá öðrum mönnum, því líf hans liggur við ef á hann er yrt á meðan hann seiðir andann til sín. Hann þarf að leggjast niður í skugga og snúa mót norðri og hafa yfir vitum sér líknarbelg af hryssufóstri og fara með særingar í bland við guðsþulur afturábak.

Þá mun andinn, sem er vofa eftir dauðan mann koma og reyna að fara ofan í manninn en líknarbelgurinn verður fyrir honum svo það ríður á að maðurinn verði snöggur að bíta saman tönnunum svo andinn festist á milli. Þá skal líknarbelgurinn með andanum í settur ofan í bauk með áristum sagnarandastaf sem er galdrastafur. Sleppi sagnarandinn úr bauknum þá gerir hann þann mann brjálaðan sem fangaði hann.

Sagnarandinn mælir ekki orð fyrr en dreypt hefur verið yfir hann helgu víni og dögg sem fellur í maímánuði.

Þegar eigandi sagnarandans er feigur þá byrjar sagnarandinn að ljúga að eigandanum og þá er best að afhenda hann nýjum eiganda eða lóga honum með því að grafa hann í jörðu í bauknum, vel signdum Rotaskrossi.

Þau álög fylgja sagnaranda að hjónum kemur illa saman á jörð þeirri sem hann er grafinn í. Einkum verður eiginkonan svo ákaflega málgefin, að eiginmaðurinn getur ekkert sagt nema: „Þú hefur rétt að mæla elskan mín“, einmitt þegar frúin rausar og lýgur sem mest.