SVG
SVG (stendur fyrir Scalable Vector Graphics eða „stækkanlegar vigurmyndir“) er stafrænt myndasnið fyrir vigurmyndir (bæði stillimyndir og hreyfimyndir) sem notast við XML-staðalinn. SVG er opinn staðall þróaður af W3C frá árinu 1999. Þar sem SVG-skjöl eru XML-skjöl er hægt að breyta þeim með hvaða XML-ritli sem er eða venjulegum textaritli en algengast er að notast við teikniforrit sem styðja SVG-sniðið á borð við Adobe Illustrator og Inkscape. Hægt er að skrifta SVG-myndir með ECMAScript til að gera þær gagnvirkar og hreyfa þær til.
SVG (Scalable Vector Graphics) | |
---|---|
Skráarending: | .svg, .svgz |
MIME-gerð: | image/svg+xml |
Hönnun: | W3C |
Fyrsta útgáfa: | 4. september, 2001 |
Tegund forsniðs: | Ívafsmál |
Útfærsla á: | XML |
SVG er hannað með það fyrir augum að nýtast við vefhönnun og flestir nútímavafrar eru með innbyggðan stuðning fyrir sniðið (mikilvæg undantekning er Internet Explorer sem þarf íforrit til að sýna SVG-myndir). Skjáborðsumhverfið GNOME hefur stutt SVG (í gegnum GTK+ og Cairo) frá 2005.