ECMAScript
ECMAScript er skriftumál sem er staðlað af Ecma International (samtökum evrópskra tölvuframleiðenda) sem ECMA-262 og ISO/IEC 16262. Það er aðallega notað í skriftum sem keyra á biðlara. Þekktustu útfærslur staðalsins eru JavaScript, JScript og ActionScript.
Upphaflega var JavaScript þróað af Netscape og fyrsti vafrinn sem studdi það var Netscape Navigator 2.0 sem kom út í mars árið 1996. Microsoft þróaði í kjölfarið sína eigin útfærslu, JScript, sem kom út með Internet Explorer 3.0 í ágúst sama ár. Síðar sama ár óskaði Netscape eftir því að Ecma staðlaði málið og fyrsta útgáfa staðalsins var gefin út 1997. Síðan þá hafa tíu útgáfur staðalsins komið út.
ECMAScript er aðallega útfært í vöfrum en til eru útfærslur fyrir .NET-keyrsluumhverfið frá Microsoft (JScript) og í margmiðlunarforritum eins og Adobe Flash (ActionScript) og Adobe Creative Suite (ExtendScript) þar sem málið er notað til að skapa gagnvirkni og sjálfvirka framkvæmd á röð aðgerða.