Súmersk trúarbrögð

Súmersk trúarbrögð eru þau trúarbrögð sem Súmerar aðhylltust. Heimildir gefa til kynna að Súmerar hafa verið upphafsmenn ritmálsins en súmerska trú má rekja til hugmynda fólks sem bjó í Mesapótamíu á árunum 3500 til 2000 f.Kr.[1] Súmersk trú felst að mestum hluta á dýrkun náttúrunnar t.d. vindi og vatni. Að öllum líkindum hafa Súmerar reynt að útskýra ýmis náttúruleg fyrirbrigði sem þeir gátu ekki leitt út með þekkingu sinni og dregið þá ályktun að hér væru á ferð guðirnir í hlutgervi náttúrunnar. Hugmyndir Súmera um líf eftir dauðann eru að mörgu leyti ekki svo frábrugðnar þeim hugmyndum sem einkenna trúarbrögð sem iðkuð eru nú til dags en þeir trúðu því að framhaldslífið fæli í sér að sál einstaklings eða andi slyppi úr greipum hins efnislega líkama og færi í dimma undirheima.[2]

Ziggurat hofið í Úr, nú Írak

Fyrstu heimildirnar sem til eru um trú og iðkun hennar innan samfélagsins koma frá Súmerum og hafa þær varðveist einstaklega vel í gegnum árin vegna þess að þær eru að mestu skrifaðar í leir og stein. Flestar þær heimildir sem fornleifafræðingar hafa í höndunum nú til dags um trúarbrögð Súmera og áhrif þeirra á daglegt líf þeirra fundust í hinni heilögu Mesapótamísku borg Nippur. Þar fundust meðal annars við uppgröft bókasafn. Þar var mikið safn leirtafla sem ritað hafði verið á með fleigrúnum. Þessar fleigrúnir hefur mönnum tekist að túlka og þaðan koma flestar heimildir sem til eru um súmerska guði og goðsagnir.

Fundist hafa ritaðar sögur af súmerskum hetjum og guðum. Það lengsta og merkilegasta sem fundist hefur er Gilgameskviða. En elsta súmerska gerðin af kvæðinu er talin vera frá þriðja keisaraveldinu (2150 – 2000 f.Kr.) en hún geymdist í munnlegum frásögnum í langan tíma áður en hún var skrifuð niður. Gilgameskviða fjallar um leit mannkynsins að ódauðleikanum og þar eru elstu frásagnir sem varðveist hafa af flóði sem gjöreyddi mestöllu lífi á jörðinni. Þaðan er að öllum líkindum sagan um Nóaflóðið í gamla testamentinu.

Sköpunarsaga og helstu guðir Súmera

breyta

Líkt og aðrar þjóðir eiga Súmerar sér guði og sköpunarsögu. Súmerar trúðu að náttúruöflin (rigninguna, vindinn og flóðin) væru lifandi fyrirbrygði. Mannfólkið gat ekki stjórnað þessum náttúruöflum og þar af leiðandi ákváðu Súmerar að dýrka þessi öfl eins og þau væru guðir. Súmersku guðirnir voru m.a. Anú, sem var æðsti guðinn; Enki, sem var guð jarðar; og Enlil, sem var guð loftsins.

Í sköpunarsögunni er fjallað um það þegar gyðjan Nammu varð til úr tóminu. Hún hafi síðan fætt himinguðinn An og jarðargyðjuna Ki (eða Ninhursag). Saman mynduðu þau óaðskiljanlega heild sem gjarnan var kölluð „fjallið“. Þessir guðir gátu af sér Enlil, guð loftsins. Hans hlutverk var að skilja að himin og jörð. Enlil var jafnframt sá guð sem kenndi manninum að rækta landið sitt.[3]

Til að sigrast á myrkrinu fæddi En-Lil guð mánans Nanna. Hann feðraði sólarguðinn Utu. Seinna birtist vatnsguðinn Enki sem svo skapaði manninn með aðstoð hinna guðanna. Maðurinn var fyrst og fremst skapaður með þeim tilgangi að þjóna guðunum. Vatnsguðinn olli hins vegar svo miklum vandræðum að hinir guðirnir neyddust til að vísa honum á brott.[4] Auk ofarnefndra guða má einnig nefna Istar, sem táknaði í senn móður jörð, stríð og ást.

Eins og í grískum og norrænum goðsögum voru guðir Súmera verur í mannsmynd og höguðu sér eins og menn með því að sýna tilfinningar og gera mistök. Þeir bjuggu hins vegar yfir eiginleikum sem engir menn búa yfir, t.d. ódauðleika, auk þess sem þeir voru stærri og vitrari en venjulegir menn.[5] Þeir voru mjög sjálfhverfir og óútreiknanlegir og kröfðust mikillar tilbeiðslu og fórna. Þetta gerðu menn til að kaupa frið frá guðunum því annars gat þeim verið refsað, t.d. með hungursneyð eða flóði.[6]

Hver og ein súmersk borg átti sinn eiginn guð. Miðpunktur hverrar súmerskrar borgar var hofið eða Siguratin sem voru heimili þess guðs sem tilheyrði hverri borg.

Þessi tilbeiðslustaður Súmera, Sigurat, er talið hafa verið kjarni súmerska ríkisins. Hofin voru mjög sérstakar byggingar úr leirsteini. Í Súmer ríkti guðveldi sem þýðir að veraldlegum og andlegum málum var stjórnað af sömu aðilunum, þ.e. kónginum. Konungurinn var æðstur allra presta og stjórnaði því í umboði guðanna. Vegna þess að konungurinn var fulltrúi guðanna á jörðu stjórnaði hann nánast alfarið fórnarthöfnum, skattheimtu, verklegum þáttum og dómsmálum í Súmer. Hofin áttu stóran hluta ræktarlands og því var algengt að alþýðubændur væru leiguliðar hofanna.

Hlutverk mannsins

breyta

Samkvæmt súmerskri trú mótuðu guðirnir manninn úr leir, með þann tilgang að þjóna þeim. Guðirnir stjórnuðu alfarið örlögum mannanna.[7] Súmerar trúðu því að tilgangur lífsins væri að þjóna guðunum. Þeir eyddu stórum hluta ævinnar í að halda þeim í góðu skapi með bænum og fórnum.[8] Allar trúarlegar athafnir áttu sér stað innan hofanna. Þetta voru daglegar, mánaðarlegar og árlegar athafnir af ýmsu tagi.

Alheimurinn

breyta

Súmerar álitu alheiminn samanstanda af himni og jörð enda er súmerska orðið fyrir alheimur an-ki sem í beinni þýðingu er „himin-jörð“. Jörðin var álitin flatur disklaga flötur umkringdur tómarúmi. Þetta allt var svo umlukið hörðu efni úr tini. Milli jarðarinnar og himnanna var efni þekkt sem lil, sem þýðir „loft“ eða „andardráttur“. Tunglið, sólin, stjörnurnar og pláneturnar voru líka úr lil. Það sem umkringdi an-ki-ið var hinn frumstæði sjór. Úr sjónum kom an-ki sem að lokum ruddi veginn fyrir lífið.

Súmerskir guðfræðingar trúðu því að hvert smáatriði í hinum margbrotna alheimi væri stjórnað af ódauðlegri veru. Alheimurinn laut hans reglum.

Heimurinn undir fótum mannsins var þekktur sem undirheimur. Súmerar trúðu því að sálir hinna fráföllnu sigu niður í þennan undirheim úr gröfum sínum. Því var haldið fram að sumstaðar væru sérstök göng í þessa undirheima sem lifandi menn gætu farið í gegnum, en ef menn færu þangað gætu þeir ekki snúið aftur nema hægt væri að finna einhvern annan til að koma í þeirra stað. Manneskja sem tæki reisu í undirheimanna þurfti samt sem áður að fylgja nokkrum grunnreglum:

  • Hún má ekki skapa nein hljóð
  • Hún má ekki vera með nein vopn í fórum sínum
  • Hún má ekki klæðast hreinum fötum
  • Hún má ekki vera í sandölum

Það að lúta ekki þessum reglum myndi lenda í því að vera haldin sem gísl af íbúum undirheimanna þangað til guð myndi blanda sér í málin. Undirheimarnir voru stjórnaðir af Nergal og Ereshkigal.

Eftir að sál úr dauðum líkama hafði farið í undirheimanna þurfti hún að fara yfir á með hjálp bátamanns sem sigldi henni yfir. Þá þurfti sálin að mæta Utu, sem dæmdi gjörðir sálarinnar. Ef dómurinn var jákvæður myndi sálin lifa það sem eftir er í hamingju. Það er hinsvegar vitað að Súmerar töldu daglegt líf í undirheimum vera dapurlegt.[9]

Guðir

breyta

Guðir Súmer voru í mannlegri mynd og höfðu svipuð einkenni eins og þeir. Þeir átu, drukku, giftust og börðust á móti hver öðrum. Jafnvel þótt guðir voru ódauðlegir og almáttugir var það ljóst mál að þeir gátu særst og jafnvel dáið. Hver guð fylgdi ákveðnum reglum guðlegs yfirvalds þekkt sem me. Hann sá til þess að hver guð væri færi um að halda alheiminum stöðugum og starfandi samkvæmt þeim áætlunum sem voru gerðar af Enlil.

Hundruðir guða voru viðurkenndir af Súmerum. Flest voru eiginkonur, börn og þjónar valdameiri guðanna.

Staður mannsins

breyta

Súmerar trúðu því að þeirra tilgangur í alheiminum væri að þjóna guðunum. Til þess að ná þessu fram vörðu Súmerar gríðarlegum tíma til að þóknast guðunum með tilbeiðslu og fórnum. Mikilvægu guðirnir voru hinsvegar álitnir hafa of þýðingarmiklar skyldur til að verja tíma sínum til þess að mæta og hlusta á bænir hversdags mannsins, lausn á þessi fólst í því að skipa persónulega guði sem milliliði milli mannsins og háu guðanna. Persónulegu guðirnir hlustuðu á bænir og millifærðu þeim á háu guðina.

Hofið var miðpunktur allra trúarathafna. Hver borg átti a.m.k. eitt stórt hof tileinkað sínum verndara. Daglegar fórnir voru gerðar á dýrum og mat, einsog vín, mjólk og ýmiskonar kjöti. Sérstakar trúarhátíðir áttu sér stað á degi nýs mána. En mikilvægasti dagurinn var samt sem áður nýársdagur.

Sá sem sá um hofið var kallaður sanga. Hann var ábyrgur fyrir fjármálum og viðhaldi hofsins, ásamt öðrum mikilvægum störfum. Trúarleiðtogi hofsins var kallaður en en hann gat verið maður eða kona en það var undir því komið hvaða goð var verið að tilbiðja í tilteknu hofi. Undir en-inum voru ýmsar undirstéttir presta svo sem guda, mah, gala, nindingir og ishib. Hlutverk þeirra er ekki þekkt. Þó vitað sé að ishib hafi almennt séð um fórnir og að gala hafi verið skáld eða söngvari.[10]

Tilvísanir

breyta
  1. (http://i-cias.com/e.o/sumer.religion.htm Geymt 21 febrúar 2015 í Wayback Machine)
  2. (http://i-cias.com/e.o/sumer.religion.htm Geymt 21 febrúar 2015 í Wayback Machine )
  3. http://www.socialstudiesforkids.com/articles/worldhistory/ancientmiddleeastreligion1.htm)
  4. (Vísindavefurinn)
  5. (Vísindavefurinn)
  6. (þúsvm bls. 17)
  7. (http://i-cias.com/e.o/sumer.religion.htm Geymt 21 febrúar 2015 í Wayback Machine)
  8. (http://realhistoryww.com/world_history/ancient/Misc/Sumer/Sumerian_Religion.htm Geymt 13 apríl 2016 í Wayback Machine)
  9. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. janúar 2014. Sótt 11. febrúar 2015.
  10. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. janúar 2014. Sótt 11. febrúar 2015.