Gos (myndasöguhöfundur)

(Endurbeint frá Rooland Goosens)

Gos (f. 1. mars 1937) er listamannsnafn belgíska myndasöguhöfundarins Rooland Goosens. Auk þess að semja eigin sögur var hann mikilvægur samstarfsmaður listamannsins Peyo.

Gos, 1994

Ferill

breyta

Rooland Goosens var hermaður í belgíska hernum og samdi myndasögur í frítíma sínum og birti í blaði hersins. Þegar hann var kominn hátt á þrítugsaldur venti hann sínu kvæði í kross og gerðist aðstoðarmaður Peyos. Sem slíkur átti hann talsverðan þátt í gerð Strumpanna og Steina Sterka, auk þess að koma að gerð handrits Svals og Vals-sögunnar Svaðilför til Sveppaborgar.

Sem starfsmaður tímaritsins Svals aðstoðaði hann vinnufélaga sinn Francois Walthéry við að skapa kvenmyndasöguhetjuna Natösju og samdi handritið að tveimur fyrstu ævintýrum hennar.

Samstarfi Gos og Peyo lauk árið 1969. Eftir það gerðist hann teiknari sagnaflokksins um leynilögreglumanninn Gil Jourdan og samdi og teiknaði sinn eigin sagnaflokk Khéna et le Scrameustache sem naut mikilla vinsælda. Hann fjallaði um ævintýri kattar utan úr geimnum og vinar hans, drengs frá Jörðinni. Frá 1973-2014 hafa komið út 42 bækur í sagnaflokknum.