Roar Kvam (fæddur 4. maí 1944 í Steinkjer í Noregi) er norskur tónlistarmaður. Hann stundaði framhaldsnám í tónlist við Musikkonservatoriet í Oslo, þar sem hann nam kórstjórn hjá Trygve Lindeman, hljómsveitarstjórn hjá Øyvin Fjeldstad og tónsmiðar hjá Finn Mortensen.

Hann hefur starfað að tónlistarmálum á Akureyri síðan 1971 er hann flutti til Íslands. Hann stofnaði og hefur starfað með Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri, sem síðar varð Blásarasveit æskunnar en báðar þessar hljómsveitir unnu til gullverðlauna í alþjóðlegum keppnum undir hans stjórn. Þá stofnaði Roar einnig Kammersveit Akureyrar, fyrirrennara Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og stjórnaði henni fyrstu fimm árin. Roar stjórnaði Lúðrasveit Akureyrar í sjö ár og Karlakórnum Geysi í áratug. Hann stofnaði Passíukórinn 1972 og stjórnaði honum alla tíð eða til ársins 1997. Roar hefur starfað sem tónlistarstjóri í nokkrum uppfærslum Leikfélags Akureyrar og má þar nefna My Fair Lady, Kabarett, Blood Brothers og Leðurblakan. Leikhúskórinn stofnaði hann svo ásamt áhugafólki um leikhústónlist árið 1996 og hefur stjórnað kórnum frá upphafi ef frá er talinn veturinn 1999.

Tenglar

breyta