Ritvinnsluforrit

(Endurbeint frá Ritvinnsla)

Ritvinnsluforrit er notendaforrit til að útbúa og vinna með skjöl sem ætluð eru til prentunar. Ritvinnsluforrit eru hönnuð til þess að auðvelda notendum að semja texta og ritstýra skjölum meðan umbrotsforrit eru notuð til að hanna prentgripi sem ætlaðir eru til dreifingar í stórum upplögum.

Skjámynd af KWord

Upphaflega var ritvinnsla unnin með sérstökum ritvinnsluvélum sem gerðu notendum kleyft að vinna með texta áður en hann var prentaður með rafmagnsritvél. Með tilkomu einkatölva og heimilistölva með tengdum prentara varð notkun ritvinnsluforrita almennari og forritin sjálf urðu þróaðri. Leiðréttingarforrit sem fara yfir stafsetningu komu fram á sjónarsviðið og hægt var að vista skjöl á disklinga og segulbandsspólur. Ritvinnsluforrit og töflureiknar voru algengustu notendaforritin sem notuð voru á einkatölvum í fyrirtækjum og á 9. áratugnum var farið að búa til skrifstofuvöndla með því að þróa og markaðssetja þessar tvær tegundir forrita samhliða.

Upphaflega voru ritvinnsluforrit með svipað notendaviðmót og textaritlar með einfalt ívafsmál til að sníða textann til; jafna, feitletra og skáletra, setja inn neðanmálsgreinar o.s.frv. Ritvinnsluforrit með WYSIWYG-virkni, þar sem notandinn sér útkomuna á skjánum nokkurn veginn eins og hún verður við prentun, komu fram með WIMP-notendaskilum. Í flestum nútímaritvinnsluforritum er hægt að setja saman texta og myndir, töflur og gröf í einu og sama skjalinu.

Fyrstu ritvinnsluforritin sem náðu mikilli útbreiðslu voru WordStar og WordPerfect á 9. áratug 20. aldar. Síðustu ár hefur Microsoft Word haft yfirburðastöðu á markaði fyrir ritvinnsluforrit. Önnur vinsæl ritvinnsluforrit í dag eru frjálsu forritin OpenOffice.org Writer, KWord og AbiWord. Nýlega hafa vefforrit á borð við Google Docs tekið að keppa við hefðbundin ritvinnsluforrit um vinsældir.

Tengt efni

breyta