Purkey
Purkey (hét til forna Svíney) er eyja í Hvammsfirði í Dalasýslu og þar var mikill búskapur áður fyrr. Purkey er stór eyja, skeifulaga, og veit opið á skeifunni að Klakkeyjum. Sagt er að írskir kaupmenn hafi til forna lagt skipum sínum í Purkey og eyjabændur og bændur af ströndinni hafi komið og verslað við þá.
Í Purkey er að finna athyglisvert stuðlaberg þar eð stuðlarnir liggja láréttir í berginu en ekki lóðréttir eins og í öðrum stuðlabergslögum á Íslandi. Að sjá er stuðlabergið einsog köflótt því rákirnar í því liggja bæði lárétt og lóðrétt.