Pure Strength var aflraunakeppni og samnefndir sjónvarpsþættir frá árunum 1987-90. Þættirnir voru teknir upp í Bretlandi og samtvinnuðu ýmsar keppnisgreinar úr svokölluðum Hálandaleikum og hefðbundnum kraftakeppnum. Þættir þessir voru sýndir á Stöð 2 við miklar vinsældir, enda Íslendingar sigursælir keppendur í þeim. Nafn þáttanna var ýmist þýtt sem Sterkasti maður heims, þótt þar væri um allt aðra keppni að ræða eða sem Hrikaleg átök“.

Saga og keppni breyta

Pure Strength-keppnin var hugarsmíð hollenska aflraunakappans og fjölmiðlamannsins Tjalling van den Bosch. Fyrsta keppnin var haldin árið 1987 í Huntly-kastala nærri Aberdeen þar sem þrír einstaklingar, Bandaríkjamaðurinn Bill Kazmaier, Englendingurinn Geoff Capes og Jón Páll Sigmarsson öttu kappi. Keppt var í tíu greinum og sigraði Jón í átta þeirra. Kazmaier hafnaði í öðru sæti en Capes rak lestina.

Árið eftir var keppnisfyrirkomulaginu breytt og keppt í tveggja manna liðum með það að markmiði að finna „sterkustu þjóð í heimi“. Pörin komu frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi og Ástralíu. Keppt var í Allington-kastala í Kent í Englandi. Bandaríska liðið fór með sigur af hólmi, en það var skipað þeim Bill Kazmaier og Stuart Thompson.

Þriðja keppnin fór fram árið 1989 í Stirling-kastala í samnefndri borg. Í stað ástralska liðsins kepptu Íslendingarnir Magnús Ver Magnússon og Hjalti „Úrsus“ Árnason. Þeir höfðu nauman sigur eftir hörkubaráttu við Bandaríkjamennina Kazmaier og O.D. Wilson, sem bar viðurnefnið Martröðin.

Fjórða og síðasta keppnin var haldin 1990 í Englandi. Íslenska og bandaríska liðið voru skipuð sömu einstaklingum en að þessu sinni snerust úrslitin við og Bandaríkjamennirnir hirtu gullverðlaunin.

Heimildir breyta