Pugwash-ráðstefnurnar

Pugwash-ráðstefnurnar um vísindi og alþjóðamál eru alþjóðlegar vísindaráðstefnur þar sem fræðimenn koma saman til þess að vinna að því að draga úr hættu á styrjöldum og finna lausnir á alþjóðlegum öryggisvandamálum.

Norman Ramsey, Francis Perrin og Robert R. Wilson á Pugwash-ráðstefnu árið 1970.

Upphaflega var stungið upp á ráðstefnunni í opnu bréfi sem 11 heimsþekktir vísindamenn, flestir Nóbelsverðlaunahafar í eðlisfræði, sendu til vísindasamfélagsins árið 1955. Í bréfinu voru vísindamenn heimsins hvattir til að taka höndum saman til þess að vinna að friði. Helstu hvatamennirnir að bréfinu voru Bertrand Russell og Albert Einstein og var stefnuskrá bréfsins kennd við þá.[1]

Fyrsta ráðstefnan var haldin árið 1957 með fjármögnun viðskiptajöfursins Cyrusar S. Eaton í þorpinu Pugwash í Nova Scotia í Kanada.[2] Markmiðið með ráðstefnunni var að sameina vísindamenn frá Vesturlöndum og Sovétríkjunum til þess að auka meðvitund þeirra um samfélagslega ábyrgð sína og á hættunni á kjarnorkustríði.[3] Fyrstu ráðstefnuna sóttu sjö vísindamenn frá Bandaríkjunum, þrír frá Rússlandi, þrír frá Japan, tveir frá Bretlandi, tveir frá Kanada og einn hver frá Austurríki, Ástralíu, Kína, Frakklandi og Póllandi.[1] Þann 11. júlí í kjölfar ráðstefnunnar var fyrsta Pugwash-yfirlýsingin samþykkt og fól hún meðal annars í sér viðvörun til stjórnvalda á því að ein vetnissprengja gæti nægt til að jafna við jörðu margar af helstu borgum heimsins. Ríkisstjórnir heimsins voru hvattar til að forðast stríð og þeim bent á ýmsar leiðir til að draga úr spennu í samskiptum sínum.[1] Ráðstefnurnar voru haldnar að minnsta kosti árlega upp frá því.

Á vettvangi Pugwash-ráðstefnanna var meðal annars stuðlað að fullgildingu Samningsins um bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn í gufuhvolfinu, himingeimnum og neðan sjávar. Viðræður vísindamannanna á ráðstefnunum leiddu til þeirrar lausnar á framkvæmd sáttmálans að jarðskjálftamælum yrði beitt til þess að hægt yrði ganga úr skugga um hvort aðildarríkin væru að gera sprengitilraunir neðanjarðar.[2]

Árið 1995 hlaut Pugwash-hreyfingin friðarverðlaun Nóbels ásamt eðlisfræðingnum Joseph Rotblat, forseta samtakana og einum stofnenda þeirra, fyrir „viðleitni sína til að draga úr þætti kjarnorkuvopna í alþjóðastjórnmálum og til að stuðla að eyðingu þeirra þegar til lengri tíma er litið“.[3][4] Verðlaunaveitingin var talin bein mótmæli gegn yfirstandandi kjarnorkutilraunum Frakka. Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, sagði það jafnframt ekki hafa verið af tilviljun að Pugwash-hreyfingin hlaut verðlaunin þegar fimmtíu ár voru liðin frá kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki.[4]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 Ólafur Gunnarsson (21. mars 1963). „Vísindin í þjónustu friðar og öryggis“. Vísir. Sótt 28. janúar 2020.
  2. 2,0 2,1 Leopold Infeld (1. janúar 1963). „Pugwash-hreyfingin“. Réttur. Sótt 28. janúar 2020.
  3. 3,0 3,1 „Barðist gegn vopninu sem hann átti þátt í að þróa“. Morgunblaðið. 14. október 1995. Sótt 28. janúar 2020.
  4. 4,0 4,1 „Endurspegla andúð almennings“. Dagblaðið Vísir. 14. október 1995. Sótt 29. janúar 2020.