Hroki og hleypidómar
Hroki og hleypidómar (enska: Pride and prejudice) er ein frægasta skáldsaga rithöfundarins Jane Austen og var fyrst gefin út árið 1813. Sagan fylgist með aðalpersónunni Elizabeth Bennett þegar hún glímir við vandamál sem tengjast mannasiðum, uppeldi, samvisku, menntun og hjónabandi í samfélagi landeigendaaðalsins á fyrri hluta 19. aldar í Englandi. Elizabeth er önnur fimm dætra sveitaherramanns og búa þau nálægt skáldaða bænum Meryton í Hertfordshire, nálægt London.
Höfundur | Jane Austen |
---|---|
Upprunalegur titill | Pride and Prejudice |
Þýðandi | Silja Aðalsteinsdóttir (1988) |
Land | Bretland |
Tungumál | Enska |
Útgefandi | T. Egerton, Whitehall |
Útgáfudagur | 28. janúar 1813 |
ISBN | ISBN 9789979535577 |
Þrátt fyrir að sagan gerist við upphaf 19. aldar vekur hún hrifningu margra nútíma lesenda og er nálægt því að vera á toppnum á lista yfir „mest elskuðu bækurnar“. Hún er orðin ein vinsælasta skáldsaga enskra bókmennta og hefur fengið töluverða umfjöllun hjá bókmenntafræðingum. Nútíma áhugi á bókinni hefur getið af sér fjöldann allan af dramatískum skáldsögum og sögum sem reyna að líkja eftir eftirminnilegustu persónum Austen og umfjöllunarefnum bókarinnar. Bókin hefur selst í meira en 20 milljónum eintaka um allan heim.
Bókin kom út í íslenskri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur árið 1988 en árið 1956 hafði komið út stytt þýðing undir heitinu Ást og hleypidómar.