Paul Lazarsfeld
Paul Felix Lazarsfeld (13. febrúar 1901 – 30. ágúst 1976) var austurrískur félagsfræðingur sem varð einn af áhrifamestu félagsfræðingum Bandaríkjanna á 20. öld. Hann stofnaði félagsvísindastofnun Columbia-háskóla, Bureau of Applied Social Research. Hann kom að félagsvísindum úr stærðfræði og var frumkvöðull á sviði fjölmiðlarannsókna og í stærðfræðilegri félagsfræði með megindlegum rannsóknaraðferðum, einkum tölfræðikönnunum, sem snerust um skoðanamyndandi áhrif fjölmiðla.
Fjölmiðlakenningar Lazarsfelds falla í hóp kenninga um veik skammtímaáhrif fjölmiðla. Rannsóknir hans á 5. áratugnum á áhrifum fjölmiðla á kosningahegðun leiddu í ljós að fjölmiðlar höfðu ekki mælanleg áhrif í þá veru að breyta skoðun ákveðinna kjósenda og lítil áhrif á óákveðna kjósendur. Mestu áhrifin fólust í að styrkja ákveðna kjósendur í ákvörðun sinni. Hann er þekktastur fyrir fjölþrepakenningu sína um að áhrif fjölmiðla á skoðanir almennings séu óbein og fari í gegnum skoðanaleiðtoga sem almenningur lítur upp til, til dæmis álitsgjafa, menningarvita, áhrifamikla stjórnmálamenn eða jafnvel fólk sem við erum í persónulegum tengslum við. Slíkir skoðanaleiðtogar virka sem nokkurs konar skoðanaskiljur milli fjölmiðla og almennings.
Hann var forseti Bandarísku félagsfræðisamtakanna árið 1962.