Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar
Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar er alþjóðasamningur sem fjallar um þau svið hugverkaréttar sem snúa að iðnaði; einkaleyfi, vörumerki, iðnhönnun og nytjamynstur. Samningurinn var saminn á ráðstefnu í París árið 1880 (í kjölfar Heimssýningarinnar 1878) og undirritaður þremur árum síðar af ellefu löndum. Hann hefur verið endurskoðaður nokkrum sinnum síðan, síðast árið 1979. Nú eru 174 lönd aðilar að samningnum sem þar með er einn útbreiddasti alþjóðasamningur allra tíma.
Grunnatriði samningsins eru gagnkvæmni réttarins (að umsækjendur njóti sama réttar í öðru aðildarlandi og þeir njóta í eigin landi) og forgangsréttur (að dagsetning skráningar í einu landi gildi líka í öðrum löndum þar sem skráning fer fram).