Heimssýningin í París 1878

Heimssýningin í París 1878 (franska: Exposition Universelle) var þriðja heimssýningin sem haldin var í París, Frakklandi. Hún stóð frá 1. maí til 10. nóvember 1878. Sýningin var fjármögnuð af frönsku ríkisstjórninni og var ætlað að sýna fram á endurheimtan styrk Frakklands eftir Fransk-prússneska stríðið 1870. Aðalsýningarsvæðið náði yfir 220.000m² á Champ de Mars. Yfir 13 milljón aðgöngumiðar seldust svo sýningin kom fjárhagslega vel út.

Höfuð Frelsisstyttunnar eftir Frédéric Bartholdi var sýnt á sýningunni.

Meðal nýrra uppfinninga sem sýndar voru var sími Alexanders Grahams Bell og grafófónn Edisons. Gatan og torgið við óperuhúsið Garnier-höll voru lýst upp með rafknúnum kolbogalömpum.

Á sýningunni var líka sýnt „negraþorp“, eins konar mannagarður sem naut mikilla vinsælda.

Fjöldi ráðstefna var haldinn í tengslum við sýninguna í Trocadéro-höll sem var reist fyrir hana. Þessar ráðstefnur leiddu til gerðar Parísarsamþykktarinnar 1883 sem var fyrsti alþjóðasamningurinn um hugverkarétt og Bernarsáttmálans um höfundarétt 1886.