Paetongtarn Shinawatra
Paetongtarn Shinawatra (f. 21. ágúst 1986) er taílensk stjórnmála- og athafnakona sem er núverandi forsætisráðherra Taílands. Hún hefur verið leiðtogi stjórnmálaflokksins Pheu Thai frá árinu 2023. Paetongtarn Shinawatra er af hinni valdamiklu Shinawatra-ætt, sem hefur mörgum sinnum farið með stjórn landsins. Faðir hennar, Thaksin Shinawatra, var forsætisráðherra Taílands frá 2001 til 2006, og föðursystir hennar, Yingluck Shinawatra, var forsætisráðherra frá 2011 til 2014. Paetongtarn er yngsti forsætisráðherra í sögu Taílands og önnur konan sem hefur gegnt embættinu, á eftir Yingluck.[1]
Paetongtarn Shinawatra | |
---|---|
แพทองธาร ชินวัตร | |
Forsætisráðherra Taílands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 16. ágúst 2024 | |
Þjóðhöfðingi | Maha Vajiralongkorn |
Forveri | Phumtham Wechayachai (starfandi) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 21. ágúst 1986 Bangkok, Taílandi |
Stjórnmálaflokkur | Pheu Thai |
Maki | Pitaka Suksawat (g. 2019) |
Börn | 2 |
Foreldrar | Thaksin Shinawatra og Potjaman Na Pombejra |
Háskóli | Chulalongkorn-háskóli (BA) Háskólinn í Surrey (MSc) |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaPaetongtarn Shinawatra gekk í einkaskóla í Taílandi og stundaði háskólanám í Bretlandi. Hún hóf síðan störf hjá Rende-hótelsamsteypunni, sem er í eigu Shinawatra-fjölskyldunnar. Eiginmaður Paetongtarn vinnur einnig hjá samsteypunni. Paetongtarn gekk í Pheu Thai-flokkinn, flokk Shinawatra-ættarinnar, árið 2021 og var útnefnd leiðtogi hans árið 2023.[2]
Faðir Patongtarns, forsætisráðherrann Thaksin Shinawatra, hrökklaðist frá völdum árið 2006 þegar taílenski herinn gerði valdarán gegn stjórn hans. Hið sama kom fyrir föðursystur Patongtarns, Yingluck Shinawatra, sem var leyst úr embætti af hernum í valdaráni árið 2014. Þegar kosningar voru haldnar í Taílandi árið 2023 var Paetongtarn útnefnd ein af þremur forsætisráðherraefnum Pheu Thai-flokksins.[3] Í kosningunum lenti Pheu Thai í öðru sæti á eftir stjórnarandstöðuflokknum Förum áfram, sem herinn leyfði ekki að mynda stjórn.[4] Pheu Thai myndaði því samsteypustjórn ásamt herstjórnarflokkunum og fasteignamógúllinn Srettha Thavisin, sem er meðlimur í flokknum, varð forsætisráðherra.[5]
Srettha Thavisin var vikið úr embætti með dómsúrskurði eftir aðeins tæpt ár sem forsætisráðherra.[6] Paetongtarn Shinawatra var í kjölfarið kjörin nýr forsætisráðherra með rúmum helmingi atkvæða á taílenska þinginu.[7]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Verður yngsti forsætisráðherra Taílands“. mbl.is. 16. ágúst 2024. Sótt 18. ágúst 2024.
- ↑ Hólmfríður Gísladóttir (16. ágúst 2024). „Dóttir Thaksin verður yngsti forsætisráðherra Taílands“. Vísir. Sótt 18. ágúst 2024.
- ↑ Bjarki Sigurðsson (1. maí 2023). „Forsætisráðherraefni fæddi barn tveimur vikum fyrir kosningar“. Vísir. Sótt 18. ágúst 2024.
- ↑ Atli Ísleifsson (15. maí 2023). „Stjórnarandstaðan vann mikinn sigur í Taílandi“. Vísir. Sótt 18. ágúst 2024.
- ↑ Kjartan Kjartansson (22. ágúst 2023). „Fasteignamógúll nýr forsætisráðherra Taílands“. Vísir. Sótt 19. ágúst 2024.
- ↑ „Forsætisráðherra Taílands vikið úr embætti“. mbl.is. 14. ágúst 2024. Sótt 18. ágúst 2024.
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (16. ágúst 2024). „Paetongtarn Shinawatra verður forsætisráðherra Taílands“. RÚV. Sótt 18. ágúst 2024.