Páll Baldvin Baldvinsson

Páll Baldvin Baldvinsson er íslenskur blaðamaður, bókmenntafræðingur, gagnrýnandi og fyrrum ritstjóri DV.

Páll Baldvin er menntaður í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og leikhúsfræði frá Goldsmith Collega í London. Hann hefur verið með menningarumfjöllun í fjölmiðlum frá 1969 og starfað sem gagnrýnandi með hléum hjá Ríkisútvarpinu, Stöð 2, DV, Þjóðviljanum, Helgarblaðinu, Fréttablaðinu og Fréttatímanum. Páll hefur gagnrýnt bæði bókmenntir og leikhús. Hann var listrænn ráðunautur hjá Borgarleikhúsinu 1991-1995 og formaður Leikfélags Reykjavíkur 1996-2001.

Árið 2006 var Páll Baldvin ráðinn ritstjóri DV ásamt Björgvini Guðmundssyni, en Páll hafði áður verið menningarritstjóri blaðsins. Hann fór frá DV yfir á Fréttablaðið, þar sem hann var fulltrúi ritstjóra og menningarritstjóri til ársins 2010. Páll Baldvin hefur verið með bókmenntagagnrýni ásamt Kolbrúnu Bergþórsdóttur í bókmenntaþætti Egils Helgasonar hjá Ríkissjónvarpinu, Kiljunni, frá því að þátturinn hóf göngu sína árið 2007. Árið 2011 varð hann jafnframt deildarforseti handrits- og leikstjórnardeildar Kvikmyndaskóla Íslands og tók sæti í stjórn skólans.

Páll Baldvin hefur verið gagnrýndur fyrir störf sín, bæði fyrir einstaka dóma og einnig fyrir að vera orðinn of valdamikill í íslenskri menningarumfjöllun. Annar bókmenntagagnrýnandi, Kristjón K. Guðjónsson, sagði í bókadómi í vefritinu Pressunni fyrir jólin 2011 um Pál Baldvin að „of mikil áhrif eins manns í örsmáum bókmenntaheimi“ væru „bæði óholl og fáránleg.“ Þá sendi lögmaður Akranesbæjar Páli Baldvini bréf þar sem krafist var leiðréttingar og afsökunarbeiðni vegna bókadóms hans um fyrsta bindi Sögu Akraness sem birtist í Fréttatímanum 8. júlí 2011. Páll Baldvin neitaði að biðjast afsökunar og sagði kröfubréfið vera alvarlega atlögu að tjáningar- og ritfrelsi sínu.

Tenglar

breyta
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.