Orrustan við Naseby
Orrustan við Naseby nálægt Naseby í Northamptonshire á Englandi 14. júní 1645 var lykilorrusta í Ensku borgarastyrjöldinni. Hinn nýskipaði enski þingher, New Model Army, undir stjórn Thomas Fairfax með riddaralið undir stjórn Olivers Cromwell, gersigraði her konungssinna undir stjórn Karls 1. með riddaralið undir stjórn Róberts Rínarfursta. Vegna mistaka tókst þinghernum að ná báðum hliðum konungshersins og umkringja þannig fótgönguliðið sem var kjarninn í hernum. Konungur missti þarna meginher sinn, fallbyssur, vistir og jafnvel persónulegan farangur með bréfasafni sínu. Eftir ósigurinn við Naseby tókst honum aldrei að mynda nægilega stóran her til að standa gegn þinginu.