Sæmundur Ormsson
Sæmundur Ormsson (um 1227 – 13. apríl 1252) var goðorðsmaður á Sturlungaöld. Hann var af ætt Svínfellinga, sonur Orms Jónssonar Svínfellings (d. 1241) og konu hans Álfheiðar Njálsdóttur. Hann var unglingur er faðir hans lést en tók þó við mannaforráðum og búi á ættarjörð sinni, Svínafelli. Guðmundur bróðir hans (f. um 1235) var í fóstri í Kirkjubæ á Síðu hjá Steinunni föðursystur sinni og manni hennar, Ögmundi Helgasyni staðarhaldara. Ögmundur þótti seilast til valda eftir lát Orms en Sæmundi líkaði það illa og varð af mikill fjandskapur.
Sæmundur gekk að eiga Ingunni laundóttur Sturlu Sighvatssonar árið 1248 og er sagt að Þórður kakali föðurbróðir hennar hafi eggjað hann til að láta ekki hlut sinn fyrir Ögmundi. Sæmundur sótti Guðmund bróður sinn úr fóstrinu hjá Ögmundi og reyndi á næstu árum tvisvar að sækja að honum. Brandi ábóta (síðar biskup), föðurbróður Sæmundar og mági Ögmundar, tókst loks að gera sætt milli þeirra en Ögmundur hélt ekki sættina. Steinunn kona hans, sem hafði hvatt mjög til sátta, lést 31. mars 1252 og tæpum tveimur vikum síðar, þegar Ögmundur frétti að Sæmundur og Guðmundur væru fámennir á ferð skammt frá Kirkjubæ, tók hann þá höndum og líflét þá, þótt Guðmundur fóstursonur hans bæði um grið.