Oleksandra Matvíjtsjúk

Úkraínskur mannréttindalögfræðingur

Oleksandra Vjatsjeslavívna Matvíjtsjúk (úkraínska: Олександра В’ячеславівна Матвійчук; f. 8. október 1983) er úkraínskur mannréttindalögfræðingur og aðgerðasinni með aðsetur í Kænugarði. Hún er forstöðumaður mannréttindasamtakanna Miðstöðvar borgaralegra réttinda og er virkur þátttakandi í herferðum fyrir lýðræðisumbótum í Úkraínu og á ÖSE-svæðinu.

Oleksandra Matvíjtsjúk
Олександра Матвійчук
Oleksandra Matvíjtsjúk árið 2022.
Fædd8. október 1983 (1983-10-08) (41 árs)
ÞjóðerniÚkraínsk
MenntunTaras Sjevtsjenko-þjóðarháskólinn í Kænugarði
StörfLögfræðingur
Þekkt fyrirStörf með Miðstöð borgaralegra réttinda

Menntun

breyta

Oleksandra Matvíjtsjúk gekk í Taras Sjevtsjenko-þjóðarháskólann í Kænugarði og útskrifaðist þaðan með LL.M.-gráðu árið 2007. Árið 2017 varð hún fyrsta konan til að taka þátt í verkefninu „Komandi leiðtogar Úkraínu“ við Stanford-háskóla.[1][2]

Starfsferill

breyta

Matvíjtsjúk hóf störf fyrir Miðstöð borgaralegra réttinda árið 2007, þegar samtökin voru stofnuð.[3]

Árið 2012 varð Matvíjtsjúk meðlimur í ráðgjafarnefnd mannréttindastjóra úkraínska þingsins (Verkhovna Rada).[4][5]

Eftir að stjórn Úkraínu beitti ofbeldi gegn friðsamlegum mótmælum á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði þann 30. nóvember 2013 stýrði Matvíjtsjúk borgaraframtakinu Evromajdan SOS (úkraínska: Євромайдан SOS). Framtakið snerist um að veita fólki sem hafði verið handtekið í Evromajdan-mótmælunum lagalega aðstoð í Kænugarði og öðrum úkraínskum borgum og safna og greina upplýsingar til að vernda mótmælendur.[6] Matvíjtsjúk hefur síðar staðið fyrir nokkrum alþjóðlegum herferðum fyrir lausn samviskufanga, meðal annars #letmypeoplego-herferðinni og herferð fyrir lausn kvikmyndagerðarmannsins Olehs Sentsov og annarra sem hafa verið ólöglega fangelsaðir í Rússlandi og hernámssvæði Rússa á Krímskaga og í Donbas.[7] Matvíjtsjúk er höfundur fjölda skýrslna til ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins, Evrópusambandsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og nokkurra innsendinga til Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag.[8][2]

Þann 4. júní 2021 var Matvíjtsjúk skipuð í nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum[9] og varð fyrsta úkraínska konan til að taka sæti í nefndinni.[10] Hún hafði talað fyrir takmörkun á ofbeldi gegn konum á átakasvæðum.

Frá úkraínsku byltingunni 2014 til ársins 2022 einbeitti Matvíjtsjúk sér að því að kortleggja stríðsglæpi í stríðinu í Donbas. Árið 2014 fundaði hún með Joe Biden, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, og mælti með því að fleiri vopn yrðu send til Úkraínu til að binda enda á stríðið.[11]

Frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu árið 2022 hefur Matvíjtsjúk birst í fjölda alþjóðlegra fjölmiðla í umboði borgaralegs samfélags Úkraínu, sér í lagi í tengslum við málefni fólks sem hefur hrakist á vergang innan landsins og í tengslum við stríðsglæpi og mannréttindi. Samkvæmt tímaritinu Foreign Policy hefur hún mælt með stofnun sérstaks „blandaðs dómstóls“ til að rannsaka stríðsglæpi og mannréttindabrot.[12]

Tilvísanir

breyta
  1. „Ukrainian Emerging Leaders Cohort 2017-18“. fsi.stanford.edu (enska). Sótt 17. ágúst 2021.
  2. 2,0 2,1 „Oleksandra Matviichuk | CivilMPlus“ (franska). 27. apríl 2018. Sótt 17. ágúst 2021.
  3. Todorov, Svetoslav (14. febrúar 2022). „Meet Oleksandra Matviichuk from Ukraine“. Friedrich Naumann Foundation (enska). Sótt 7. október 2022.
  4. „Про створення консультативної ради“. Офіційний вебпортал парламенту України (úkraínska). Sótt 17. ágúst 2021.
  5. „Women Pursue a Democratic Future for Ukraine“. National Endowment for Democracy (bandarísk enska). 7. mars 2022. Sótt 13. júní 2022.
  6. „Євромайдан SOS“. maidanmuseum.org (úkraínska). Sótt 17. ágúst 2021.
  7. „Oleksandra Matviichuk“. religiousfreedom.in.ua. Sótt 17. ágúst 2021.
  8. „Oleksandra Matviichuk“. Skopje Youth Summit (bandarísk enska). Sótt 17. ágúst 2021.
  9. „18th Meeting of States parties - Elections 2021“. www.ohchr.org. Sótt 17. ágúst 2021.
  10. „Оголошення про результати добору кандидата для висунення на обрання членом комітету ООН проти катувань“. minjust.gov.ua (rússneska). 4. júní 2021. Sótt 1. apríl 2022.
  11. „Activist who met Biden in 2014 says 'Putin war crimes could have been stopped'. The Independent (enska). 29. mars 2022. Sótt 13. júní 2022.
  12. Mackinnon, Robbie Gramer, Amy. „Ukraine's 'Nuremberg Moment' Amid Flood of Alleged Russian War Crimes“. Foreign Policy (bandarísk enska). Sótt 13. júní 2022.