Norræna vegabréfasambandið
Norræna vegabréfasambandið byggir á Norræna vegabréfaeftirlitssamningnum milli Norðurlandanna og felur í sér að ríkisborgarar Norðurlandanna geta ferðast óhindrað milli landanna án þess að framvísa vegabréfi. Samningurinn var undirritaður af Danmörku (gilti þó ekki fyrir Færeyjar og Grænland), Svíþjóð, Finnlandi og Noregi (gilti þó ekki fyrir Jan Mayen og Svalbarða) árið 1957 en hann byggði á bókun frá 1954 um að leysa ríkisborgara annarra Norðurlanda undan skyldu til að hafa í höndum vegabréf og dvalarleyfi við dvöl í öðru norrænu landi en heimalandinu. Bókunin tók gildi á Íslandi 1955 og samningurinn gilti einnig á Íslandi frá og með 1966.
Vegabréfasambandið var einn af fyrstu vísum formlegs samstarfs Norðurlandanna sem síðan hefur einkum átt sér stað innan Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs.
Norræna vegabréfasambandið féll að vissu leyti inn í Schengen-samstarf Evrópusambandsins sem tók gildi með samningi 2001. Ísland og Noregur fengu aðild að Schengen-samstarfinu þrátt fyrir að vera ekki meðlimir í Evrópusambandinu. Schengen-samstarfið hefði ellegar markað endalok Norræna vegabréfasambandsins ef ESB-ríkin Svíþjóð, Finnland og Danmörk hefðu ein gerst aðilar að Schengen-samstarfinu og þar með lokað sínum ytri landamærum gagnvart Norðurlöndum utan ESB.
Heimildir
breyta- „Fyrirlestur um Schengen í Háskóla Íslands 7. október 2009“, vefsíða Dómsmála- og mannréttindráðuneytisins, skoðað 16. febrúar 2010.
- „Frumvarp til laga um útlendinga“, vefsíða Alþingis, skoðað 16. febrúar 2010.
- „Schengen: samvinna landamæra á milli“ Geymt 11 febrúar 2010 í Wayback Machine, Lögregluvefurinn, skoðað 16. febrúar 2010.