Norðurpóllinn (leikhús)
Norðurpóllinn var leikhús og menningarmiðstöð við Norðurslóð á Seltjarnarnesi, stofnað í byrjun árs 2010 og starfaði til ársins 2013. Í janúar 2013 höfðu um 30.000 manns lagt leið sína í Norðurpólinn áður en því var lokað. Leikhúsið var eingöngu rekið með sjálfsaflafé.
Saga
breytaStarfsemi Norðurpólsins hófst í janúar 2010 í húsi sem áður hýsti starfsemi Borgarplasts. Húsið er 1100 fm iðnaðarhúsnæði sem byggt var árið 1996. Norðurpóllinn er rekið af einkahlutafélaginu Alheimurinn ehf. Stofnendur vour Arnar Ingvarsson, Gríma Kristjánsdóttir, Guðjón Pálmarsson og Íris Stefanía Skúladóttir en í janúar 2011 kom Búi Bjarmar Aðalsteinsson inn í starfsemina í stað Guðjóns.
Leikhúsið
breytaLeikhúsið var vettvangur fyrir margvíslega starfsemi tengda listum. Auk aðstöðu til sýninga var vinnuaðstaða fyrir listamenn í húsinu. Norðurpóllinn var eitt af fáum einkareknum leikhúsum á Íslandi. Auk þess er það einstakt fyrir þær sakir að vera svo kallað verksmiðjuleikhús[1] eða verksmiðja sem hefur verið breytt í leikhús. Slík leikhús hafa notið mikilla vinsælda í Evrópu.
Sýningar
breytaFyrsta frumsýning í leikhúsinu var þann 17. febrúar og var það uppsetning leikfélags Menntaskólans við Sund á Aladdín. Í kjölfarið fylgdi leiksýning byggð á bók Andra Snæs Magnasonar, LoveStar, í uppsetningu Herranætur, leikfélags Menntaskólans í Reykjavík.
Fyrsta frumsýning atvinnuleikhóps var þann 24. apríl 2010. Það var uppsetning á leikverkinu Glerlaufin eftir Philip Ridley. Sýningin var í leikstjórn Bjartmars Þórðarsonar. Í leikhópnum voru Jóel Sæmundsson, Ólafur S.K. Þorvaldz, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir og Vigdís Másdóttir.
Sýningin Fjalla-Eyvindur sem sýnd var í Norðurpólnum hlaut tvær tilnefningar til Grímuverðlauna starfsárið 2010-2011. Það var fyrir bestu sýningu og bestu leikkonu í aðalhlutverki.
Lokun
breytaSeinasta sýning Norðurpólsins var sýnd vorið 2013. Vegna nýs skipurits Seltjarnarnesbæjar var ákveðið að breyta iðnaðarsvæði við Gróttu í íbúabyggð.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. ágúst 2009. Sótt 9. mars 2010.