Neðri-Ás er bær í Hjaltadal í Skagafirði. Upphaflega hét jörðin Ás en skiptist síðar í tvennt og bærinn Efri-Ás var reistur svolítið innar í dalnum. Neðri-Ás er í dalsmynninu að norðan, undir ásnum sem er á milli Hjaltadals og Kolbeinsdals.

Þorvarður Spak-Böðvarsson bjó í Ási seint á 10. öld. Hann gerðist kristinn og reisti kirkju á bæ sínum sextán árum fyrir kristnitöku, eða árið 984 (983 ef miðað er við kristnitöku árið 999), og kann það að hafa verið fyrsta kirkja sem reist var á Íslandi. Eina heimildin um kirkjubygginguna er að vísu Kristni saga, sem rituð var nærri 300 árum seinna, en við fornleifauppgröft í Neðra-Ási á árunum 1998-1999 var grafinn upp grunnur að kirkju sem örugglega var frá því fyrir 1104 og sennilega frá því um árið 1000. Kirkja hefur því risið í Ási mjög snemma. Í Kristni sögu er sagt að kirkja Þorvarðar, reist úr viði sem fluttur var inn frá Englandi, hafi enn staðið í tíð Bótólfs biskups (1238-1246), en reyndar kom í ljós við uppgröftinn að þrjár kirkjur höfðu verið í Ási og sú síðasta hafði brunnið, líklega um 1300.

Einnig voru grafnar upp um 100 grafir í kirkjugarðinum og virtust þær nær allar frá því fyrir 1104. Hugsanlegt er að hætt hafi verið að nota garðinn þegar biskupsstóll var stofnaður á Hólum 1106.

Heimildir

breyta
  • „Skýrsla um fornleifauppgröft í Neðra-Ási. Orri Vésteinsson 2000“ (PDF).