NCS
NCS (skammstöfun fyrir Natural Color System eða „náttúrulega litakerfið“) er staðlað litakerfi sem sænska fyrirtækið Skandinaviska Färginstitutet AB gefur út. Kerfið byggist á gagnlitakenningu þýska lífeðlisfræðingsins Ewald Hering. Í kerfinu eru því þrjú andstæðupör frumlita: hvítur og svartur, grænn og rauður, blár og gulur. Kerfið er talið lýsa því betur hvernig fólk upplifir liti en einfaldari litakerfi eins og RGB.
Notkun NCS-kerfisins er algengust fyrir litaprufur í málningu, í hönnun og arkitektúr. Það er notað sem opinber litastaðall í nokkrum löndum.
Tvö dæmi um litagildi í NCS-kerfinu (litirnir í sænska fánanum):
- Gulur – NCS 0580-Y10R (= 5% dökkur, 80% mettun, 90% gulur + 10% rauður)
- Blár – NCS 4055-R95B (= 40% dökkur, 55% mettun, 5% rauður + 95% blár)