Náttúruleg landamæri

Náttúruleg landamæri eru landamæri milli ríkja sem liggja eftir náttúrulegum hindrunum eins og ám, fjallgörðum, hafi eða eyðimörkum.

Náttúruleg landamæri geta verið mikilvæg í hernaðarlegu tilliti þar sem innrásarherir eiga erfitt með að komast yfir slíkar hindranir.

Útþensla ríkisins þangað til náttúrulegum landamærum er náð var áberandi í utanríkisstefnu ýmissa ríkja og markmið með stríði. Sem dæmi má nefna að Rómaveldi þandist út í nokkrum skrefum að náttúrulegum landamærum eins og Alpafjöllum, Rínarfljóti, Dóná og Sahara. Yfirráð yfir landsvæðum handan þessara landamæra voru yfirleitt veikari en yfirráð yfir svæðum innan þeirra. Styrjaldirnar milli Danmerkur og Svíþjóðar á 17. öld voru að hluta afleiðing tilrauna Svía til að ná náttúrulegum landamærum við Skagerrak og Kattegat, Kjölinn (fjallgarðinn á miðjum Skandinavíuskaganum) og Eystrasalt.