Múhameð Naguib

1. forseti Egyptalands (1901-1984)
(Endurbeint frá Mohamed Naguib)

Múhameð Naguib Youssef Kotp Elkashlan (محمد نجيب á arabísku letri; 19. febrúar 1901 – 28. ágúst 1984) var egypskur herforingi, stjórnmálamaður og fyrsti forseti Egyptalands. Hann gegndi forsetaembættinu frá stofnun egypska lýðveldisins þann 18. júní 1953 til 14. nóvember 1954.

Múhameð Naguib
محمد نجيب
Múhameð Naguib árið 1952.
Forseti Egyptalands
Í embætti
18. júní 1953 – 14. nóvember 1954
ForsætisráðherraHann sjálfur
Gamal Abdel Nasser
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurGamal Abdel Nasser
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. febrúar 1901
Kartúm, Súdan
Látinn28. ágúst 1984 (83 ára) Kaíró, Egyptalandi
MakiAziza M. Labib
StarfHerforingi, stjórnmálamaður
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Múhameð Naguib fæddist í Kartúm í Súdan til egypsks föður og súdanskrar móður. Hann kom úr frægri fjölskyldu egypskra vísindamanna og faðir hans hafði gegnt þjónustu í egypska hernum í Súdan.

Naguib varði æskuárum sínum í Súdan, þar sem hann lék sér við dýr og með tindáta. Hús fjölskyldunnar var skreytt veiðigripum en faðir hans vildi ekki að hann fetaði í fótspor sín og gerðist hermaður. Naguib vann því sem túlkur og hlaut síðar gráðu í stjórnmálafræði og réttarvísindum. Þegar faðir hans lést árið 1916 hafði Naguib sest að í Kaíró. Hann lauk aldrei doktorsgráðu sinni því hann var farinn að klífa metorðastigann í egypska hernum þvert gegn óskum foreldra sinna. Naguib hafði betrumbætt ensku-, frönsku- og ítölskukunnáttu sína og var byrjaður að læra hebresku. Hann átti síðar eftir að fyrirskipa að hebreska yrði kennd í egypskum herskólum svo hermenn gætu ráðið skilaboð Ísraela þegar til stríðs kæmi gegn Ísrael.

Ferill

breyta

Naguib var einn af leiðtogum herforingjauppreisnarinnar sem steypti af stóli Farúk Egyptalandskonungi þann 23. júlí 1952. Þann 17. september 1952 varð Naguib forsætisráðherra Fúads konungs, sem hafði tekið við af Farúk. Þann 18. júní 1953 lýsti Naguib yfir endalokum egypska konungdæmisins og stofnun lýðveldis þar sem hann yrði fyrsti forsetinn og í senn áfram forsætisráðherra. Gamal Abdel Nasser varð næsti forsætisráðherra Naguibs.

Nasser sakaði Naguib um að vera of hallur undir Bræðralag múslima, sem Nasser áleit ógn við samfélagsskipulag Egyptalands. Auk þess kom ágreiningur upp á milli þeirra þar sem Naguib vildi snúa aftur til stjórnarskrárbundins lýðveldis fremur en stjórn byltingardómstóla sem Nasser aðhylltist.[1] Vegna andstöðu Nassers neyddist Naguib til að segja af sér embætti þann 14. nóvember 1954. Nasser tók við af honum með því skilyrði að stofnað yrði stjórnlagaráð til að semja stjórnarskrá fyrir egypska lýðveldið.[1]

Undir lok ársins 1954 var Naguib settur í stofufangelsi, sakaður um að hafa átt þátt í morðtilræði gegn Nasser.[1] Hann var fangelsaður til ársins 1970, þegar Nasser dó. Eftir að hann hlaut frelsi sitt tók hann ekki frekari þátt í egypskum stjórnmálum.[1]

Heimild

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Biography of Mohammed Naguib“ (enska). Encyclopedia Britannica. Sótt 12. júlí 2018.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Egyptalands
(18. júní 195314. nóvember 1954)
Eftirmaður:
Gamal Abdel Nasser