Metýlenblátt er lífrænt efnasamband sem hefur efnaformúluna C16H18ClN3S. Það er notað á ýmsum sviðum svo sem í líffræði og efnafræði. Við herbergishita er metýlenblátt fast efni, lyktarlaust, dökkgrænt duft sem verður blátt þegar það er leyst upp í vatni.

Þrívíddarmynd af metýlenbláu í oxuðu formi

Notkun

breyta

Efnafræði

breyta

Metýlenblátt eða metýlþíóníníumklóríð er mikið notað sem litvísir fyrir afoxun í efnagreiningu. Lausnir með metýlenbláu verða bláar í oxandi umhverfi en litlausar ef afoxun á sér stað. Þessir afoxunareiginleikar eru vel sýnilegir í algengri efnafræðitilraun, sem kölluð er bláa flaskan, en þá er lausn úr þrúgusykri, metýlenbláu og vítissóda hrist. Þá oxar súrefnið metýlínblátt og lausnin verður blá. Þrúgusykurinn hefur svo þau áhrif að metýlenblátt verður smám saman litlaust. Þegar allt súrefnið er uppurið verður lausnin litlaus.


Líffræði

breyta

Metýlenblátt er notað sem litunarefni á rannsóknarstofum. Það er einnig notað til að greina hvort frumur eins og ger eru lifandi eða ekki.

Læknisfræði

breyta

Metýlenblátt hefur verið notað við meðhöndlun á methemóglóbíndreyra sem lýsir sér þannig að húðin verður blá. Þó það hljómi einkennilega þá er hægt að nota bláa litunarefnið til að minnka bláma í húð en það gerist þegar metýlenblátt afoxar methemóglóbín. [1]

Metýlenblátt er notað í skurðaðgerðum m.a. til að lita saltlausn sem sprautað er kringum æxli sem á að fjarlægja og sem litunarefni til að greina sjúkdóma.

Metýlenblátt var áður notað með góðum árangri sem malaríulyf en notkun þess var hætt á millistríðsárunum þar sem bandarískum hermönnum geðjaðist ekki að aukaverkunum lyfsins en þær voru að þvag varð grænt á lit og augnhvíta blá. Nú hefur aftur vaknað áhugi á að nota metýlenblátt við malaríu, ekki síst vegna þess að sem lyf er það mjög ódýrt í framleiðslu.[2]

Í bæklunaraðgerðum er metýlenblátt notað til að greina á milli ígrædds beinþykknis (bone cement) og upprunalegs beins. Það hraðar því líka að ígrætt beinþykkni harðni.

Stórir skammtar af metýlenbláu eru stundum notaðir við afeitrun við sérstakar gerðir af eitrunum.

Nýlegar rannsóknir virðast benda til þess að metýlenblátt (metýlþíóníníumklóríð) geti hægt á eða stöðvað framþróun Alsheimer-sjúkdómsins. [3]

Tilvísanir

breyta
  1. „Er til blátt fólk?“. Vísindavefurinn.
  2. Schirmer H, Coulibaly B, Stich A; og fleiri (2003). „Methylene blue as an antimalarial agent—past and future“. Redox Rep. 8: 272–76. doi:10.1179/135100003225002899.
  3. „BBC News article - Alzheimer's drug 'halts' decline“.

Tenglar

breyta