Meginlandsréttur
Meginlandsréttur (einnig kallaður rómversk-germanskur réttur[1]) er réttarkerfi sem upprunið er á meginlandi Evrópu og hefur síðan verið tekið upp í mörgum löndum víða um heim. Meginlandsréttur á rætur að rekja til Rómarréttar og byggir fyrst og fremst á skráðum réttarreglum sem réttarheimild. Meginlandsréttur er gjarnan skilgreindur í andstöðu við hinn enska fordæmisrétt sem þróaðist á miðöldum og byggir á dómafordæmum sem helstu réttarheimild.[2]
Meginlandsréttur er í grunninn sóttur í lagabálk Býsansríkis, Corpus Iuris Civilis en hefur orðið fyrir áhrifum frá lögbók Napóleons, germönskum venjurétti, kirkjurétti og ýmsum staðbundnum réttarvenjum. Auk þess hafa seinni tíma stefnur og straumar haft áhrif, t.d. náttúruréttur og vildarréttur.[3] Bent hefur verið á að vafasamt sé að líta á meginlandsrétt sem eitt réttarkerfi, heldur sé hægt að skipta honum í þrjá meginstrauma sem hafa hver sín sérkenni, þ.e. Napóleonsrétt, þýskan rétt og norrænan rétt (sem m.a. gildir á Íslandi).[1] Munurinn þarna á milli felst t.d. í því hvernig löggjöf er sett fram og hvernig dómstólar starfa.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Davíð Þór Björgvinsson. (1990). Samanburðarlögfræði. Tímarit Lögfræðinga 40(4) Greinin á timarit.is
- ↑ Husa, Jaakko (2. maí 2016). The Future of Legal Families (enska). 1. árgangur. Oxford University Press. doi:10.1093/oxfordhb/9780199935352.013.26.
- ↑ Charles Arnold Baker, The Companion to British History, s.v. "Civilian" (London: Routledge, 2001), 308.