Með hjartað í buxunum

bók um Sval og Val frá árinu 1988

Með hjartað í buxunum (franska: La frousse aux trousses) er 40. Svals og Vals-bókin og sú áttunda eftir þá Tome og Janry. Bókin kom út á frummálinu árið 1988 en í íslenskri þýðingu ári síðar. Hún er fyrri hlutinn af tveimur, en seinni hlutinn nefnist Dalur útlaganna.

Söguþráður breyta

Svalur og Valur undirbúa ferðalag til Túbútt-Sjan við landamæri Nepals. Tilgangurinn er að grennslast fyrir um afdrif vísindaleiðangurs Frakkans Adriens Maginot og Þjóðverjans Günters Siegfried, sem hurfu sporlaust árið 1938 í leit að hinum goðsagnakennda Dal útlaganna, en samkvæmt fornum sögnum höfðu sveitir Mongólaleiðtogans Djengis Khans rekið uppreisnargjarnan þjóðflokk til útlegðar í dalnum mörgum öldum fyrr. Í dag er Túbútt-Sjan hins vegar hernumið land og óaðgengilegt blaðamönnum.

Félagarnir eiga í stökustu vandræðum með að fjármagna leiðangurinn. Svalur reynir að afla fjár með fyrirlestrarhaldi, en sögur hans reynast of æsilegar fyrir áheyrendur sem leggja á flótta eða hníga í yfirlið. Sálfræðingurinn Doktor Plasíbó fær snjalla hugmynd. Meðal sjúklinga hans eru einstaklingar sem þjást af krónískum hiksta og vonast sálfræðingurinn til að þeir geti læknast af kvillanum með hjálp ótta.

Doktor Plasíbó býðst til að fjármagna leiðangurinn gegn því að sjúklingarnir fái að slást í hópinn. Það reynist kyndugur samtíningur, þar á meðal leigumorðingi, olíufursti og skógarbjörn í dulargervi. Þrátt fyrir að vera með alla hersinguna í eftirdragi tekst Sval og Val að laumast inn í landið og forðast árásir hermanna jafnt sem skæruliða. Munar þar mikið um Greppa, smávaxinn sherpa sem gerist leiðsögumaður þeirra félaganna.

Í lok bókarinnar bjarga Svalur og Valur lífi hermanns sem veitt hafði þeim eftirför, en hrapa í leiðinni niður í beljandi stórfljót. Ferðalangar þeirra fylgjast skelfingu lostnir með. Þeir læknast af hikstanum, en vita ekki frekar en lesandinn í bókarlok hvort Svalur og Valur séu lífs eða liðnir…

Fróðleiksmolar breyta

  • Þegar sagan birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval nefndist hún Angoisse à Touboutt–Chan, en nafninu var breytt þegar kom að útgáfu bókarinnar.
  • Túbútt-Sjan á augljóslega að vera Tíbet og hermennirnir sem elta Sval og Val eiga að vera kínverskir, þótt það sé ekki sagt berum orðum.
  • Leiðsögumaðurinn Greppi segist í framhjáhlaupi hafa fylgt ungum ferðalangi með hvítan hund í leiðangri þar sem þeir hafi hitt Snjómanninn ógurlega. Það er lítt dulbúin vísun í bókina um Tinna í Tíbet.

Íslensk útgáfa breyta

Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1989. Þetta var 26. bókin í íslensku ritröðinni.