Markus Söder

þýskur stjórnmálamaður

Markus Söder (f. 5. janúar 1967) er þýskur stjórnmálamaður. Hann er núverandi forsætisráðherra Bæjaralands og formaður Kristilega sósíalsambandsins (CSU), systurflokks Kristilega demókrataflokksins (CDU) í Bæjaralandi.

Markus Söder
Markus Söder árið 2020.
Forsætisráðherra Bæjaralands
Núverandi
Tók við embætti
16. maí 2018
ForveriHorst Seehofer
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. janúar 1967 (1967-01-05) (57 ára)
Nürnberg, Bæjaralandi, Vestur-Þýskalandi (nú Þýskalandi)
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurKristilega sósíalsambandið (CSU)
MakiKarin Baumüller
TrúarbrögðLúterskur
Börn4
HáskóliHáskólinn í Erlangen
Undirskrift

Söder gekk í ungliðahreyfingu CSU þegar hann var sextán ára gamall. Hann útskrifaðist með gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Erlangen undir lok níunda áratugarins og vann í blaðamennsku í byrjun tíunda áratugarins. Árið 1994 var hann kjörinn á landsþing Bæjaralands.

Frá 1995 til 2003 var Söder formaður ungliðahreyfingar CSU en varð síðan aðalritari flokksins þegar hann var 36 ára gamall. Hann tók sæti í ríkisstjórn Bæjaralands árið 2007 þegar Günther Beckstein útnefndi hann sambands- og Evrópumálaráðherra. Hann varð umhverfisráðherra árið 2008 og fjármálaráðherra þremur árum síðar. Árið 2018 varð hann forsætisráðherra Bæjaralands.

Í apríl 2021 tilkynnti Söder að hann hygðist sækjast eftir útnefningu CDU og CSU til þess að verða kanslaraefni flokkanna í þingkosningum í september sama ár[1] en Armin Laschet, formaður Kristilegra demókrata, var að endingu valinn sem frambjóðandi flokksins.[2]

Æviágrip

breyta

Æska og menntun

breyta

Árið 1983, þegar Söder var sextán ára gamall, gekk hann í ungliðahreyfingu (þ. Junge Union) Kristilega sósíalsambandsins í Bæjaralandi. Hann útskrifaðist úr menntaskóla þremur árum síðar og gegndi síðan eins árs þjónustu í þýska hernum.

Árið 1988 hóf Söder nám í lögfræði við Friedrich-Alexander-háskólann í Erlangen. Hann útskrifaðist úr fyrri hluta laganámsins árið 1991.

Starfsferill

breyta

Söder hóf starfsferil sinn hjá háskólanum sem aðstoðarmaður prófessors við rannsóknir í stjórnsýslurétti, stjórnarskrárrétti og kirkjurétti. Hann var síðan ráðinn til starfa hjá bæverska ríkisútvarpinu Bayerischer Rundfunk og vann þar í starfsnámi þar til hann lauk öðru ríkisprófinu í lögfræði árið 1993. Hann vann síðan sem ritstjórnarráðgjafi í eitt ár.

Upphaf og uppgangur í stjórnmálum

breyta

Söder bauð sig fram fyrir Kristilega sósíalsambandið í kjördæminu Vestur-Nürnberg í héraðskosningum sem fóru fram þann 25. september 1994. Hann náði kjöri á landsþing Bæjaralands aðeins 27 ára gamall. Næsta ár var hann kjörinn forseti ungliðahreyfingar Kristilega sósíalsambandsins (Junge Union) og gegndi því hlutverki til ársins 1995. Árið 2000 var hann valinn formaður fjölmiðlanefndar CSU. Tveimur árum síðar var hann kjörinn í framkvæmdastjórn ríkisfjölmiðilsins Zweites Deutsches Fernsehen (ZDF).

Stjórn CSU og ráðherratíð

breyta

Eftir að Söder lét af embætti sem forseti ungliðahreyfingarinnar útnefndi Edmund Stoiber, forseti CSU, Söder aðalritara flokksins þann 17. nóvember 2003 í stað Thomasar Goppel, sem hafði tekið við ráðherraembætti í bæversku ríkisstjórninni. Þann 16. október 2007 var Markus Söder útnefndur ráðherra sambands- og Evrópumála í stjórn Günthers Beckstein, forsætisráðherra Bæjaralands. Christine Haderthauer tók í kjölfarið við af Söder sem aðalritari CSU.

Eftir héraðskosningar árið 2008 varð Söder umhverfis- og heilbrigðisráðherra Bæjaralands í fyrstu stjórn Horsts Seehofer. Hann hætti í kjölfarið störfum sínum hjá ZDF. Söder var útnefndur fjármálaráðherra Bæjaralands þann 4. nóvember 2011 eftir afsögn Georgs Fahrenschon. Alexander Dobrindt tók sama ár við af Söder sem forseti fjölmiðlanefndar CSU. Þann 10. október 2013 voru fleiri verkefni færð undir ráðuneyti Söders og hann var þaðan af titlaður fjármála, héraðsþróunar- og innanríkisráðherra.

Forsætisráðherra Bæjaralands

breyta

Þann 16. mars 2018 var Söder kjörinn forsætisráðherra Bæjaralands með 99 atkvæðum af 169 greiddum á landsþinginu.[3] Hann tók við af Horst Seehofer, sem hafði verið útnefndur innanríkisráðherra í stjórn Angelu Merkel þremur dögum fyrr. Í héraðskosningum Bæjaralands þann 14. október 2018 missti Kristilega sósíalsambandið meirihluta sinn á bæverska landsþinginu. Til þess að geta haldið völdum í sambandslandinu þurfti flokkurinn að ganga til stjórnarmyndunarviðræða við aðra flokka. Eftir viðræður við óháða þingmenn tókst Söder að ná endurkjöri sem forsætisráðherra Bæjaralands þann 6. nóvember með 110 atkvæðum gegn 89 á landsþinginu.[4]

Söder tilkynnti í apríl 2021 að hann hygðist sækjast eftir útnefningu CSU og CDU til að verða kanslaraefni flokkanna í þingkosningum Þýskalands í september 2021.[1][5] Þann 12. apríl var hins vegar talið að Armin Laschet, formaður Kristilega demókrataflokksins, hefði tryggt sér útnefninguna með stuðningi framkvæmdastjórnar flokksins.[6] Staðfest var eftir miðstjórnarfund þann 19. apríl að Laschet yrði kanslaraefni flokksins í kosningunum.[2]

Einkahagir

breyta

Söder er kvæntur og á fjögur börn. Hann aðhyllist lúterska trú.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (11. apríl 2021). „Spennan í kanslara­kapp­hlaupinu magnast“. Vísir. Sótt 11. apríl 2021.
  2. 2,0 2,1 „Laschet staðfest­ur sem kansl­ara­efni CDU“. mbl.is. 19. apríl 2021. Sótt 20. apríl 2021.
  3. „Markus Söder ist neuer bayerischer Ministerpräsident“ (þýska). Bayerischer Rundfunk. 16. mars 2018. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. nóvember 2018. Sótt 11. apríl 2021.
  4. „Söder erneut zum Ministerpräsidenten gewählt“ (þýska). Süddeutsche Zeitung. 6. nóvember 2018. Sótt 11. apríl 2021.
  5. „Söder og Laschet vilja taka við af Merkel“. mbl.is. 11. apríl 2021. Sótt 13. apríl 2021.
  6. „Laschet verður kansl­ara­efni CDU“. mbl.is. 12. apríl 2021. Sótt 13. apríl 2021.

Tenglar

breyta