Maria Goeppert-Mayer

(Endurbeint frá Maria Goeppert Mayer)

Maria Goeppert-Mayer (28. júní 1906 – 2. ágúst 1972) var þýsk-bandarískur eðlisfræðingur sem vann til Nóbelsverðlaunanna í eðlisfræði árið 1963 fyrir rannsóknir sínar á sviði kjarneðlisfræðinnar. Hún var önnur konan sem vann til verðlaunanna á eftir Marie Curie.[1]

Maria Goeppert-Mayer
Maria Goeppert-Mayer árið 1963.
Fædd28. júní 1906
Dáin2. ágúst 1972 (66 ára)
ÞjóðerniÞýsk, síðar bandarísk
MenntunGeorg-August-háskólinn í Göttingen
StörfEðlisfræðingur
MakiJoseph Edward Mayer
Börn2
Verðlaun Nóbelsverðlaun í eðlisfræði (1963)
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Maria Goeppert-Mayer fæddist (undir nafninu Maria Göppert) í borginni Kattowitz, sem tilheyrði þá þýska keisaraveldinu en er nú í Póllandi. Þegar Maria var fjögurra ára flutti fjölskylda hennar til Göttingen, þar sem faðir hennar hafði fengið stöðu prófessors í barnalækningum við Georg-August-háskólann.[2]

Eftir að Maria lauk grunnskólanámi skráði hún sig til þriggja ára undirbúningsnáms fyrir konur í einkaskóla sem rekinn var af kvenréttindasamtökum í borginni. Skólinn varð gjaldþrota stuttu eftir ósigur Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni en árið 1924 stóðst Maria inntökupróf í Georg-August-háskólann og hóf háskólanám í stærðfræði. Maria skipti síðar yfir í eðlisfræðinám að áeggjan prófessorsins Max Born.[2]

Maria hóf doktorsnám í Göttingen-háskólanum árið 1928. Árið 1930 giftist hún Joseph Edward Mayer, bandarískum eðlisfræðingi sem hafði hlotið styrk frá Rockefeller-stofnuninni til rannsóknarnáms í Göttingen. Sama ár varði Maria doktorsritgerð sína, þar sem hún fjallaði á skammtafræðilegar líkur á tvíljósaútgeislun frá atómi þegar rafeind stekkur niður á innra hvel. Doktorsleiðbeinendur hennar voru Max Born og James Franck.[2]

Maria flutti stuttu síðar ásamt eiginmanni sínum til Bandaríkjanna, þar sem Joseph hafði fengið stöðu við efnafræðideild Johns Hopkins-háskólans í Baltimore. Maria hlaut aðstoðarmannsstöðu við eðlisfræðideildina og fékk þannig aðgang að starfsemi deildarinnar. Hún vann ásamt Karl F. Herzfeld og skrifaði með honum greinar um eðlisefnafræði. Hún dvaldi í Göttingen sumrin 1931 og 1933 og skrifaði ítarlega grein um kristallasveiflur með Max Born.[2]

Goeppert-Mayer flutti til New York árið 1939 ásamt eiginmanni sínum, sem hafði fengið stöðu við Columbia-háskóla. Þar starfaði hún meðal annars ásamt Harold Urey við rannsóknir á aðgreiningu úransamsæta og hvort hægt væri að skilja þær að með ljósefnavirkum hvörfum. Í háskólanum hóf hún einnig samstarf með Enrico Fermi, sem taldi hana á að reyna að segja fyrir um hvelamynstur og gildisrafeindir á óuppgötvuðum frumeindum sem liggja utar í lotukerfinu en úran.[2]

Árið 1946 hlaut Goeppert-Mayer stöðu prófessors í kjarneðlisfræði við Chicago-háskóla. Í lok seinni heimsstyrjaldarinnar tók hún ásamt J. Hans D. Jensen, prófessor við Tækniháskólann í Hanover, þátt í rannsóknum á eðli kjarnamættisins til að útskýra fyrirbrigði eins og segulmætti, reglubundin minniháttar stökk í bindiorku og orkuróf gammageisla. Goeppert-Mayer og Jensen birtu niðurstöðugreinar sínar í tímaritinu Physical Review árið 1949 og útskýrðu þar að víxlverkum kjarnamættisins við samanlagðan spuna og brautarhverfiþunga stýrði því hvernig róteindir og nifteindir röðuðust í hvel.[2]

Goeppert-Meyer og Jensen hlutu Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir rannsóknir sínar árið 1963 ásamt bandarísk-ungverska eðlisfræðingnum Eugene Wigner. Árið 1960 hlutu Maria og Joseph bæði prófessorsstöður við Kaliforníuháskóla í San Diego. Maria Goeppert-Meyer lést í San Diego árið 1972.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. Guðrún Hálfdánardóttir (9. desember 2017). „Hvar eru konurnar?“. mbl.is. Sótt 5. ágúst 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 Örn Helgason (25. nóvember 2011). „Hver var Maria Goeppert-Mayer og hvert var hennar framlag til vísindanna?“. Vísindavefurinn. Sótt 9. apríl 2024.