Margaret Murray
Margaret Alice Murray (13. júlí 1863 – 13. nóvember 1963) var breskur fornleifafræðingur, egypskufræðingur og þjóðfræðingur. Hún fæddist inn í breska fjölskyldu á Breska Indlandi og hóf nám í egypskum fræðum við University College London þar sem hún kynntist Flinders Petrie og tók þátt í uppgröftum hans í Abýdos. Hún skrifaði bækur um egypsk fræði fyrir almenna lesendur og kenndi við British Museum og Manchester Museum. Hún var fyrsta konan sem fékk stöðu í fornleifafræði við University College London þar sem hún kenndi frá 1898 til 1935. Hún var forseti Bresku þjóðfræðisamtakanna frá 1953 til 1955.
Murray er þekktust fyrir þá kenningu sína að nornafárið á árnýöld hafi tengst tilraunum kirkjunnar til að útrýma leifum af heiðnum siðum sem byggðust á trú á hyrndan guð. Kenningin náði miklum vinsældum eftir að hún setti hana fram með grein í tímaritið Folklore árið 1917. Þá hafði hún lengi verið virk í bresku kvennahreyfingunni Women's Social and Political Union og tekið þátt í mörgum aðgerðum samtakanna. Árið 1929 var henni boðið að skrifa færsluna fyrir hugtakið „Witchcraft“ í alfræðiritið Encyclopædia Britannica. Kenningin hafði áhrif á Wicca-hreyfinguna í Bretlandi á 6. og 7. áratug 20. aldar. Á sama tíma sætti hún harðri gagnrýni sagnfræðinga sem töldu hana byggjast á yfirborðskenndri þekkingu á atburðum nornafársins í Evrópu.