Hellnahellir á Landi er mestur allra manngerðra hella á landinu. Hann er grafinn í mjúkan sandstein og er nálægt 50 m langur og bæði hár og víður. Hellirinn greinist í þrjá hluta, Heyhelli, Gamlahelli og Göngin. Veggjaristur og fornar hleðslur eru í hellinum. Bærinn Hellar (eða Hellur), þar sem hellirinn er, tekur nafn sitt af manngerðum hellum enda er ekki öðrum hellum til að dreifa á þeim slóðum. Ekki er þó víst að hann heiti eftir Hellnahelli sjálfum. Á Hellum eru tveir aðrir hellar uppistandandi, Lambhellir og Hestahellir. Allir eru hellarnir gamlir og stórir og með góðum forskálum. Í hlaðvarpanum fyrir framan bæinn á Hellum eru tvær lautir sem nefndar eru Kirkjur og eru það augljóslega leifar af hellum sem hafa hrunið. Fátt er vitað um aldur þessa mikla hellis en ljóst er þó að hann hefur orðið til á löngum tíma og á sér a.m.k. þrjú byggingarstig. Veggjaristur í honum segja ekki mikið um aldurinn en sýna þó að hann er a.m.k. frá 17.öld. Sagnir um að hann hafi orðið fyrir tjóni í jarðskjálfta um 1600 benda til enn hærri aldurs. Freistandi er að álykta að bærinn heiti eftir hellinum eða elstu hlutum hans. Sé svo er hellirinn eldri en frá 1332 því bæjarnafnið kemur fyrir í bréfi frá því ári. Raunar er ekkert sem mælir gegn því að hann sé eldri, jafnvel frá landnámsöld. Því hefur verið haldið fram að hann kunni að vera enn eldri og gerður af pöpum fyrir landnám norrænna manna en það er þó ólíklegt.

Inngangurinn að hellinum.
Hellnahellir

Heimildir

breyta
  • Árni Hjartarson, Guðmundur J. Guðmundsson og Hallgerður Gísladóttir (1991). Manngerðir hellar á Íslandi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.