Mannanafnanefnd er íslensk nefnd sem ákveður og samþykkir íslensk mannanöfn samkvæmt Lögum um mannanöfn. Hún var stofnuð árið 1991 og nefndin er skipuð þremur mönnum af innanríkisráðherra Íslands til fjögurra ára í senn. Heimspekideild Háskóla Íslands tilnefnir eina manneskju í nefndina, lagadeild Háskóla Íslands eina og Íslensk málnefnd eina. Úrskurðum hennar er ekki hægt að skjóta til æðra stjórnvalds.

Starfsemi

breyta

Þjóðskrá Íslands viðheldur mannanafnaskrá. Ef Þjóðskrá berst tilkynning um eiginnafn sem ekki er í skránni vísar hún málinu til Mannanafnanefndar. Nefndin hittist reglulega til að afgreiða umsóknir um mannanöfn, en þau nöfn sem Mannanafnanefnd samþykkir verða, skv. lögum (45/1996)[1] að lúta íslenskum málfræðireglum um stafsetningu og endingu, eða hafa unnið sér hefð í málinu. Leyfð nöfn eru færð á mannanafnaskrá. Mest er heimilt að bera þrjú eiginnöfn.

Gagnrýni og þróun

breyta

Margvísleg gagnrýni hefur verið sett fram á Lög um mannanöfn, og hlutverk og starfsemi Mannanafnanefndar gegnum tíðina.

Árið 1971 var lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um mannanöfn, þar sem fólki yrði á ný heimilt að taka upp ættarnöfn, „enda væru þau íslensk og í samræmi við íslenskt málkerfi.“[2]

Fram að gildistöku nýrra laga árið 1996 þurftu innflytjendur til Íslands að breyta nöfnum sínum til samræmis við lög, og taka upp íslensk nöfn. Á tíunda áratug 20. aldar barðist rithöfundurinn Þorgeir Þorgeirson fyrir rétti sínum til að skrifa og skrá föðurnafn sitt með einu s-i.

Frumvarp um að leggja Mannanafnanefnd niður var lagt fram á þingi haustið 2006, af Birni Inga Hrafnssyni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Guðjóni Ólafi Guðjónssyni og Sæunni Stefánsdóttur. Frumvarpið varð ekki að lögum.

Á þingi vetrarins 2013–2014 lagði þingflokkur Bjartrar framtíðar fram nýtt frumvarp að lögum á Alþingi, um að fella niður mannanafnanefnd. Sagði í rökstuðningi meðal annars: „Réttur foreldra til að ráða nafni barns síns er mikill og óumdeildur en réttur löggjafans til afskipta af nafngjöfum er að sama skapi takmarkaður. Núgildandi lög um mannanöfn hafa sætt gagnrýni, þá sér í lagi hvað varðar mannanafnanefnd og úrskurði hennar. Dæmi eru um að nöfnum hafi verið hafnað þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og tungu og hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir.“ Almennt ætti að gera ráð fyrir að nöfn séu leyfð, sagði í rökstuðningi, og aðeins í sérstökum undantekningatilfellum ætti ríkisvaldið að geta hlutast til gegn mannanafni. Þá var í rökstuðningi lögð áherslu á að í því fælist mismunun að ákveðnir hópar íbúa hefðu rétt til ættarnafna en aðrir ekki. Var í frumvarpinu lagt til að öllum yrði heimilt að taka upp ættarnafn. Frumvarpið er enn til þingmeðferðar.[3] Flutningsmaður frumvarpsins var Óttar Proppé.[4]

Fyrri lög um mannanöfn

breyta

Í gildi eru Lög um mannanöfn nr. 45 frá árinu 1996.[1]

Fyrri lög um mannanöfn á Íslandi, frá 1925, voru svohljóðandi:

1. grein. Hver maður skal heita einu íslensku nafni eða tveim og kenna sig til föður, móður eða kjörföður og jafnan rita nafn og kenningarnafn með sama hætti alla ævi.
2. grein. Ættarnafn má enginn taka sér hér eftir.
3. grein.
1. mgr. Þeir íslenskir þegnar og niðjar þeirra, sem bera ættarnöfn, sem eldri eru en frá þeim tíma, er lög nr. 41 10. nóv. 1913 komu í gildi, mega halda þeim, enda hafi þau ættarnöfn, sem yngri eru en frá síðastliðnum aldamótum, verið tekin upp með löglegri heimild, sbr. 9. gr. þeirra laga. Sama er og um þá erlenda menn, er til landsins flytjast.
2. mgr. Þeir íslenskir þegnar og börn þeirra, sem nú bera ættarnöfn, sem upp eru tekin síðan lög nr. 41 1913 komu í gildi, mega halda þeim alla ævi.
3. mgr. Konur þeirra manna, sem rétt hafa til þess að bera ættarnöfn, mega nefna sig ættarnafni manns síns.
4. grein. Ekki mega menn bera önnur nöfn en þau, sem rétt eru að lögum íslenskrar tungu. Prestar skulu hafa eftirlit með, að þessum ákvæðum sé fylgt. Rísi ágreiningur um nafn, sker heimspekideild háskólans úr.
5. grein. Nú hefir maður hlotið óþjóðlegt, klaufalegt eða erlent nafn áður en lög þessi voru sett, og getur hann þá breytt nafni með leyfi konungs.
6. grein. Stjórnarráðið gefur út skrá, eftir tillögum heimspekideildar háskólans, yfir þau mannanöfn, er nú eru uppi, en bönnuð skulu samkvæmt lögum þessum. Skrá þessi skal send öllum prestum landsins. Skráin skal gefin út á hverjum 10 ára fresti, að lokinni útgáfu hins almenna manntals.
7. grein. Brot gegn ákvæðum þessara laga varða sektum. Með mál út af lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
8. grein. Lög nr. 41, 10. nóv. 1913, eru numin úr gildi, svo og önnur lagaákvæði, er komið geta í bága við lög þessi."

Leyfð íslensk nöfn sem innihalda ‚th‘

breyta

Dígrafið ‚th‘ er afar sjaldgæft í íslensku og því fá nöfn sem hafa verið leyfð af mannanafnanefnd.

Drengir Stúlkur
Anthony Theodór[5] Agatha[6] Dóróthea Hertha Matthildur
Arthur[7] Theódór Agnethe Edith[8] Judith[9] Ruth[10]
Arthúr Thomas Ásthildur Elisabeth Kathinka[11] Thea
Lúther[12] Thor[13] Athena[14] Elísabeth[15] Lisbeth Thelma[16]
Marthen[17] Thór Bertha[18] Esther[19] Martha[20] Theodóra[21]
Mathías[22] Thorberg Bóthildur Ethel Matthea[23] Theódóra
Matthías Mathías Dorothea[24] Gauthildur Matthía Theresa
Methúsalem[25] Dórothea[26] Gestheiður Matthilda

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. 1,0 1,1 Lög um mannanöfn 1996 nr. 45 á vef Alþingis
  2. http://www.althingi.is/altext/112/s/0828.html>[óvirkur tengill Frumvarp til laga um mannanöfn á 11. þingi, 1989–1990] Sjá: „Athugasemdir“
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, 143. löggjafarþing 2013–2014
  4. Óttar Proppé mælir fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mannanöfn
  5. Ritháttur af Theódór.
  6. Ritháttur af Agata.
  7. Ritháttur af Arthúr.
  8. Ritháttur af Edit.
  9. Ritháttur af Júdit.
  10. Ritháttur af Rut.
  11. Ritháttur af Katinka.
  12. Ritháttur af Lúter.
  13. Ritháttur af Tór.
  14. Ritháttur af Atena.
  15. Ritháttur af Elísabet.
  16. Ritháttur af Telma.
  17. Ritháttur af Martin.
  18. Ritháttur af Berta.
  19. Ritháttur af Ester.
  20. Ritháttur af Marta.
  21. Ritháttur af Theódóra.
  22. Ritháttur af Matthías.
  23. Ritháttur af Mattea.
  24. Ritháttur af Dórótea.
  25. Ritháttur af Metúsalem.
  26. Ritháttur af Dórótea.

Heimildir

breyta
  • „Grein hjá Mannanafnaskrá um nöfn sem innihalda ‚th'. Sótt janúar 2008.

Tenglar

breyta
   Þessi Íslandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.