Lög um mannanöfn hafa gilt á Íslandi frá árinu 1914. Ný lög voru samþykkt 1925, 1991 og 1996. Mannanafnanefnd hefur það hlutverk að úrskurða í vafamálum um uppfyllingu laganna. Helstu átakamál í þróun laganna hafa snúist um ættarnöfn og erlend nöfn.[1] Upp úr aldamótunum 1900 snerust þær deilur að miklu leyti um inntak þjóðhollustu, en í kringum aldamótin 2000 ber meira á gagnrýni á grundvelli mannréttinda, sjálfsákvörðunarréttar einstaklinga og sjálfsmyndar.


Saga laganna

breyta

Forsaga

breyta

„Í fámennara og strjálbýlla samfélagi fyrri alda hét fólk einu nafni, því nafni sem við nú köllum eiginnafn (fyrra eða fyrsta eiginnafn).[2] Fram á tólftu öld má finna dæmi um það á Englandi að fólk bæri aðeins eitt nafn. Þó voru viðurnefni orðin algeng um árið 1000, á við „Sæmundur fróði“, „Hallgerður langbrók“ og svo framvegis. Ættarnöfn tíðkuðust fyrst meðal Rómverja, dreifðust um heimsveldið og ruddi víðast hvar burt þeim germanska sið að bera föðurnafn (eða móðurnafn, í undantekningatilfellum). Í Frakklandi tóku ættarnöfn að tíðkast á 10. öld, ásamt þeirri nýjung, sem tilheyrði þeim, að þau gengju í arf.[2]

Á miðöldum voru aðalsmenn fyrstir til að bera ættarnöfn en siðurinn barst síðan niður eftir stigveldi samfélaga: til embættismanna, kaupmanna, borgara, loks verkalýðsins.[2]

Ættarnöfn bárust til Danmerkur í upphafi 16. aldar en tíðkuðust ekki meðal almennra borgara fyrr en um 1700. Í byrjun 19. aldar bar um fjórðungur Dana ættarnafn. Landsbyggðarfólk bar þau síður en íbúar borga og hélt sig við föðurnöfn.[2]

Fyrstu ættarnöfn á Íslandi

breyta

Fyrstu ættarnöfn á Íslandi eru talin vera frá 17. öld. Á síðari hluta 19. aldar færðist í vöxt að Íslendingar breyttu föður- eða móðurnafni í ættarnafn. Ættarnöfn voru 108 í manntalinu 1855 en hafði fjölgað í 297 árið 1910. Fremstar fóru yfirstéttir landsins í upptöku ættarnafna.[2][3]

Umræða um aldamót

breyta

Guðmundur Kamban, áður Guðmundur Jónsson, skrifaði greinina „Ættarnöfn“ í Skírni 1908. Hefst greinin á orðunum: „Menn eru að hugsa um málið. Skoðanirnar skiftast. Mig langar til að vísa veg í því, sem allir ætti að geta gengið saman.“ Má af greininni ætla að umræða um ættarnöfn hafi verið fyrirferðarmikil á landinu á þessum tíma. Byrjar hannn á að hæðast að hugmyndinni um að föðurnafnið sé sérstaklega þjóðlegt fyrirbæri: „Já, þjóðlegt er það. Ég er þeim alveg samdóma um það. Það er jafn-þjóðlegt á Íslandi nú eins og það hefir einu sinni verið í öllum löndum. Það er jafn-íslenzkt í dag eins og það var enskt eða þýzkt fyrir mörgum öldum. Og það hefir ekki verið nándar nærri jafnlengi íslenzkt eins og það hefir verið danskt eða norskt eða sænskt eða grískt eða rússneskt. Ef eitthvað er því þjóðlegra, sem það hefir náð lengur festu með þjóðunum, þá eru ekki nema nokkrir áratugir síðan föðurnöfnin voru miklu þjóðlegri í Danmörku heldur en þau eru nú eða hafa nokkurn tíma verið á Íslandi. Lengra er ekki liðið síðan er ættarnöfn voru tekin upp hvarvetna þar í landi. Þau voru gerð þjóðleg með lögum.“ Færði Guðmundur í greininni fram þau rök að samfélög án ættarnafna væru álitin menningarlega aftarlega. Hann vísaði til Darwins til að rökstyðja mikilvægi „ættartilfinningar“. Hann hrakti þau rök að ættarnöfn mismunuðu konum, þar sem föðurnöfn gerðu það enn frekar. Loks lagði hann mikla áherslu á hversu „alíslenzk“ ættarnöfn gætu verið: „Það er ekki satt, að ættarnöfn geti ekki verið íslenzk. Það er ekki satt, að tungan okkar sé svo ófullkomin; það er ekki annað en fátæktar-barlómur þeirra manna, sem vita ekki hvað hún er rík. Alíslenzk geta þau orðið …“ [4] Hann sagðist „ætlast til að allir ungir menn', karlar og konur, þeir sem vilja að jafnrökrétt og hreint og tignarlegt mál, sem íslenzkan er, eigi sér samboðin mannanöfn, þá tegund þjóðernis, sem einna mest ber á, — eg ætlast til að þeir allir teki sér upp falleg og alíslenzk nöfn, sem gera má að ættarnöfnum.“ Að svo búnu tók hann sér, í niðurlagi greinarinnar, nafnið Kamban, sem hann var nefndur upp frá því.

Fram að því að lög voru sett um ættarnöfn árið 1915 voru slík lagaboð „mjög fábrotin, en mest farið eftir venjureglum, sem þó var yfirleitt ekki skylt að fylgja.“ „Engar hömlur voru settar að lögum á nafnavalið.“ [3]

Lögin 1914: Ættarnöfn til sölu

breyta

Frumvarp um lög um ný mannanöfn og ættarnöfn var lagt fram á Alþingi árið 1913. Gerðar voru breytingar á frumvarpinu og skipuð var nefnd til að gera tillögur um útfærslu. Lögin tóku gildi 1914. Árið 1915 skilaði nefndin tillögum um leiðir til að mynda ný íslensk ættarnöfn og reglur sem fylgja skyldi við að leiða þau, til dæmis, af örnefnum. Sama ár tóku nýju lögin gildi.

Í lögunum fólst meðal annars að hver „sá maður, sem hlotið hefur tvö eiginheiti, eða fleiri, skal vera skyldur til, frá því að hann verður 16 ára, að nota sama nafn og nöfn alla ævi, nema leyfi fái til breytingar, og rita þau jafnan á sama hátt. Eiginnafni mátti enginn breyta, nema að fengnu konungsleyfi.“[3]

Þau heimiluðu fólki að bera ættarnöfn gegn greiðslu. Þeir sem þegar báru ættarnafn gátu skráð það fyrir tveggja króna skrásetningargjald sem fól um leið í sér bann við að aðrir gætu tekið upp sama nafn, enda töldust nöfnin „eign þeirra, sem þau nota“.[3] Þeir sem ekki báru þegar ættarnafn gátu sótt um leyfi fyrir slíku til stjórnarráðsins[3] og fengu þá ættarnafnsleyfisbréf, gegn tíu króna gjaldi. Næsta áratug voru gefin út um 270 slík leyfisbréf.[2]

Benný Sif Ísleifsdóttir segir að með gjaldtökunni megi segja „að stjórnvöld hafi … stutt við það munstur er þegar var komið fram og lagt sitt af mörkum til viðhalds þeirri trú að ættarnöfnin væru fyrir efri stéttirnar en föðurnöfnin fyrir almenning.“ [2] (25)

Lögin 1925: Bann við ættarnöfnum

breyta

Stefna þeirra sem andvígir voru ættarnöfnum hlaut meirihluta þingsins árið 1925.[3] Bjarni Jónsson frá Vogi lagði árið 1923 fram frumvarp til laga um mannanöfn með þann tilgang að útrýma ættarnöfnum. Um 200 ný ættarnöfn höfðu þá verið samþykkt, til viðbótar við eldri ættarnöfn, frá því fyrri lög tóku gildi, 1914.[3] Frumvarpið var samþykkt í neðri deild þingsins en því var hafnað í efri deild. Í umræðum stakk Bjarni upp á að hver sá er skrifaði sig ættarnafni „skyldi greiða árlegan nafnbótarskatt – tíu krónur fyrir hvert atkvæði í nafninu.“ Telur Benný Sif Ísleifsdóttir hugmyndina um ættarnöfn sem skattstofn til marks um að litið hafi verið á ættarnöfn sem verðmæti og þar með sérréttindi. [2]

Árið 1925 lagði Bjarni frumvarpið fram aftur með þeim breytingum að allir þeir sem þegar báru ættarnöfn gætu haldið þeim en bannað yrði að taka upp ný. Eiginkonur karla með ættarnöfn gætu tekið þau upp, en þau erfðust ekki til barna þeirra. Benný Sif Ísleifsdóttir segir ákvæðið hafa reynst haldlítið „því fólk fór á svig við reglurnar með því að gefa börnum ættarnöfn við nafngjöf sem annað nafn af tveimur eða þriðja nafn. … Ættarnöfnin lifðu því enn góðu lífi og þeim hélt áfram að fjölga, löglegum ættarnöfnum sem og þeim ólöglegu.“[2] (26) Sagt er að lögin frá 1925 hafi verið „dauður bókstafur því lítið sem ekkert var farið eftir þeim“.[5] „Þau ættarnöfn sem upp voru tekin á árunum 1915–1925 ganga því í ættum með sama hætti og eldri ættarnöfn. Í öðru lagi hafa menn alla tíð frá gildistöku laga nr. 54/1925 tekið sér ný „ættarnöfn“, þrátt fyrir ákvæði laganna, og látið þau ganga til barna sinna og annarra niðja.“ Stjórnvöld höfðu lítil afskipti af þróun þeirra mála. [3]

Erlendir menn sem fluttu til landsins máttu samkvæmt lögunum halda eftirnöfnum sínum eins þó að þeim væri veittur íslenskur ríkisborgararéttur.[3]

Meðal annarra ákvæða í lögunum 1925 var, í 5. grein, að sá sem hlotið hefði „óþjóðlegt, klaufalegt eða erlent nafn“ áður en lögin voru sett, gæti fengið því breytt með leyfi konungs.[3]

Lögin standa í 66 ár

breyta

Frumvarp að nýjum lögum um mannanöfn var lagt fram á þingi árið 1955 en var ekki samþykkt. Hefði upptaka ættarnafna, samkvæmt frumvarpinu, verið leyfileg að uppfylttum ákveðnum skilyrðum. Rökstuðningurinn var ekki síst sá að banni við upptöku nýrra ættarnafna hefði alls ekki verið framfylgt: „Í þá þrjá áratugi, sem lögin hafa verið í gildi, hefur notkun ættarnafna, sem ekki eiga stoð í lögunum, verið látin viðgangast átölulaust af hálfu allra þeirra ríkisstjórna, sem á þeim tíma hafa setið að völdum. … Þeir menn sem nú bera ættarnöfn án stoðar í lögum, munu skipta þúsundum. Það yrði mjög erfitt, ef ekki óframkvæmanlegt, að útrýma þessum ættarnöfnum með málshöfðunum og beitingu refsiákvæða gegn öllum þeim fjölda, sem hér á hlut að máli. En það verður á hinn bóginn að teljast mjög óheppilegt að hafa lagaákvæði í gildi að formi til, sem mönnum er látið haldast uppi að virða að vettugi.“[3] Einn nefdnarmannana að baki frumvarpinu, Þorsteinn Þorsteinsson, vildi leggja enn ríkari áherslu á mikilvægi ættarnefna en hinir og skilaði séráliti þaraðlútandi. [3] Þar sem frumvarpinu var hafnað hélst nefnt lagaákvæði í gildi, eftir sem áður. 

Árið 1965 birtist orðið „nafnahefð“ fyrst á prenti.[1] Árið 1971 var einnigt lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um mannanöfn, þar sem fólki yrði á ný heimilt að taka upp ættarnöfn, „enda væru þau íslensk og í samræmi við íslenskt málkerfi.“[6] Frumvarpið varð ekki að lögum. Nýtt frumvarp var lagt fram árið 1981 og varð ekki heldur að lögum.

Lögin 1991

breyta

Árið 1989 var skipuð nefnd til að endurskoða lagafrumvarpið frá 1971. Ný lög um mannanöfn tóku gildi 1991, byggð á tillögum nefndarinnar. Sagt er að með þessum lögum hafi fyrst komist festa á nafngiftir. Gömul ættarnöfn, „lögleg sem ólögleg“ voru þar með leyfð, en bann lagt við upptöku nýrra ættarnafna.[5]

Helsti munurinn á þessu lögum og þeim sem tóku gildi 1996 fólst í meðferð erlendra nafna. Samkvæmt lögunum 1991 þurftu erlendir ríkisborgarar að taka upp íslenskt eiginnafn við upptöku íslensks ríkisborgararéttar. Þær reglur voru felldar úr gildi með lögunum 1996 og má fólk nú bera sitt eigið nafn þó að það flytjist til Íslands. [1]

Lög um mannanöfn 1996 nr. 45 (núgildandi)

breyta

Ásamt þeirri breytingu að innflytjendur gætu borið nöfn sín þó að þeir fengju íslenska ríkisborgararétt, fólu lögin um mannanöfn sem samþykkt voru árið 1996 meðal annars í sér þá breytingu að fólki væri almennt heimilt að taka upp millinafn, byggt á eignarfalli nafns annars foreldris, og kenna sig þannig við báða foreldra.[7] Sambærilegt ákvæði var í lögunum 1914, þá nefnt kenningarnafn, en var fellt niður 1925, enda hefði það verið lítið notað.[3]

Millinafn er hverjum frjálst að velja sér, innan þess ramma sem mannanafnaskrá setur, og eru ekki vernduð. Rótgróin ættarnöfn njóta þó enn þeirrar verndar sem þeim var veitt með lögunum frá 1914. Úrskurðað var árið 2009 að persóna mætti ekki taka millinafnið Skagan þar sem það væri skráð ættarnafn „og jafnvel þó enginn bæri það væru einhverjir á lífi sem ættu rétt á nafninu.“ Í þessum tiltekna úrskurði kemur fram að nafnið „er ekki til á mannanafnaskrá, hvorki sem eiginnafn né sem millinafn. Hins vegar er nafnið Skagan ættarnafn samkvæmt skrá yfir ættarnöfn sem upp voru tekin á árinu 1919 og birt í stjórnartíðindum það ár. Samkvæmt upplýsingum frá ÞJóðskrá ber enginn núlfiandi karl eða kona nafnið Skagan í Þjóðskrá en hins vegar eru á lífi einstaklingar sem rétt eiga til ættarnafnsins …“[8] Þá er óheimilt að bera tvö millinöfn, en heimilt að bera tvö ættarnöfn, innan fjölskyldna sem bera þau þegar.[2]

Um tilkomu millinafnanna segir Benný Sif Ísleifsdóttir að þau megi „líta á sem hálfgerðan bitling til handa þeim er eiga ekki rétt á að bera eiginleg ættarnöfn. Ættarnöfnin eru „ekta“ og fágæti þeirra er varið með lögum en millinöfnin eru einungis „ódýr eftirlíking“ sem enginn lítur við eigi hann kost á öðru – enda eru þau ekki varin gegn offramboði og geta því ekki náð því verðgildi sem sum ættarnöfn kannski ná. Löggjafinn viðheldur vinsældum ættarnafna. Með því að verja fágæti þeirra skapa yfirvöld ákveðnum hópum samfélagsins aðstæður til að gera sitt ættarnafn að vernduðu vörumerki.“[2]

Hjörleifur Guttormsson var meðal þeirra sem varaði við tilkomu millinafnanna í þingræðu. Sagði hann „nafnhefð“ föðurnafnanna vera „skýr mernningarfur“. „Ég held að við þurfum að gæta vel að því við umfjöllun þessa máls þegar skoðaður er þessi stóri þáttur í menningu Íslendinga, eins og það er kallað með réttu í nefndaráliti, áður en við lögleiðum breytingar sem fyrr en varir geta leitt til kollsteypu. Og það erí rauninni það sem mér sýnist stefna í,“ sagði hann ennfremur.

Fram að gildistöku nýrra laga árið 1996 þurftu innflytjendur til Íslands að breyta nöfnum sínum til samræmis við lög, og taka upp íslensk nöfn. Á tíunda áratug 20. aldar barðist rithöfundurinn Þorgeir Þorgeirson fyrir rétti sínum til að skrifa og skrá föðurnafn sitt með einu s-i.

Gagnrýni eftir árið 2000

breyta

Frumvarp um að leggja Mannanafnanefnd niður var lagt fram á þingi haustið 2006, af Birni Inga Hrafnssyni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Guðjóni Ólafi Guðjónssyni og Sæunni Stefánsdóttur. Frumvarpið varð ekki að lögum.

Gagnrýnin sem lögð er fram upp úr aldamótunum 2000 byggir á annars konar rökum en sú sem Guðmundur Kamban lagði fram hundrað árum fyrr. Á meðan hann skírskotaði til þjóðmenningar í rökstuðningi fyrir ættarnöfnum er nú algengara að gagnrýni á strangleika laganna grundvallist á mannréttindum og sjálfræðisrétti einstaklinga. Jón Gnarr, þáverandi borgastjóri Reykjavíkur, skrifaði:

„Nú er nafnið manns stór hluti af sjálfsmynd manns. Klæðaburður er það líka. Hugsum okkur bara ef til væri Mannaklæðanefnd, skipuð háskólamenntuðu fólki, sem ákveddi sín á milli, hvernig fötum Íslendingar ættu að klæðast. Markmiðið væri að forðast útlend áhrif í klæðavali en hvetja fólk frekar til að klæðast þjóðbúningnum til að glata ekki tengslum við land og þjóð. Bannað væri með lögum að taka upp nýja stíla eins og pönk, hippaklæðnað og hip-hop. Allir sem vildu klæða börnin sín í eitthvað óhefðbundið þyrftu að sækja um það til nefndarinnar. Ég er hræddur um að við myndum ekki sætta okkur við það. Og eins finnst mér með nafnalögin.“[9]

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir hins vegar um málið: „Sumir nafnssiðir eru þó þess eðlis að þeir snerta ekki síður veigamikla hagsmuni samfélagins en einkasiði manna og er réttur löggjafans til afskipta af þeim þá meiri en ella. Þetta á ekki síst við um íslenska kenninafnasiði.“[2]

Frumvarp 2013

breyta

Á þingi vetrarins 2013–2014 lagði þingflokkur Bjartrar framtíðar fram nýtt frumvarp að lögum á Alþingi, um að fella niður mannanafnanefnd. Sagði í rökstuðningi meðal annars: „Réttur foreldra til að ráða nafni barns síns er mikill og óumdeildur en réttur löggjafans til afskipta af nafngjöfum er að sama skapi takmarkaður. Núgildandi lög um mannanöfn hafa sætt gagnrýni, þá sér í lagi hvað varðar mannanafnanefnd og úrskurði hennar. Dæmi eru um að nöfnum hafi verið hafnað þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og tungu og hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir.“ Almennt ætti að gera ráð fyrir að nöfn séu leyfð, sagði í rökstuðningi, og aðeins í sérstökum undantekningatilfellum ætti ríkisvaldið að geta hlutast til gegn mannanafni. Þá var í rökstuðningi lögð áherslu á að í því fælist mismunun að ákveðnir hópar íbúa hefðu rétt til ættarnafna en aðrir ekki. Var í frumvarpinu lagt til að öllum yrði heimilt að taka upp ættarnafn. Frumvarpið er enn til þingmeðferðar.[10] Flutningsmaður frumvarpsins var Óttar Proppé.[11]

Hallfríður Þórarinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar Innflytjendarannsókna, Reykjavíkur-Akademíunni, er einn umsagnaraðila um frumvarpið. Hún segir „fagnaðarefni“ að frumvarpið sé lagt fram. Ennfremur að lögin frá 1996 endurspegli „ekki einasta niðurnjörvaða forræðishyggju og ríkisafskipti sem endurspegla afdönkuð og ólýðræðisleg viðhorf heldur brjóta þau hreinlega í bága við 65. gr. VII. kafla Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944“ en greinin er framsetning svokallaðrar jafnræðisreglu, að allir skuli jafnir fyrir lögum. „Með því að fella úr gildi 7. mgr. í 8. gr. „Óheimilt er að taka upp ættarnafn á Íslandi“ er tekið skilyrðislaust og ákveðið skref í lýðræðisátt og mismunun eytt,“ segir ennfremur í álitinu, en frumvarpið gangi of skammt því enn verði gert ráð fyrir reglum um íslenska rithátt nafna.[12]

Heimildir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Erla Rún Jónsdóttir, Íslensk kvennanöfn fyrr og nú, ritgerð til BA-prófs við Háskóla Íslands, maí 2010, bls. 58
  2. 2,00 2,01 2,02 2,03 2,04 2,05 2,06 2,07 2,08 2,09 2,10 2,11 Benný Sif Ísleifsdóttir, „Það er nefnilega fínna að vera sen en dóttir.“, lokaverkefni til BA-gráðu í þjóðfræði, Háskóla Íslands 2013
  3. 3,00 3,01 3,02 3,03 3,04 3,05 3,06 3,07 3,08 3,09 3,10 3,11 3,12 Greinargerð við frumvarp til laga um mannanöfn, 1955
  4. Guðmundur Kamban, „Ættarnöfn“, Skírnir 82. árg. 1908, bls. 164
  5. 5,0 5,1 Halldór Gunnar Haraldsson, „Hvenær voru lög um bann við ættarnöfnum samþykkt á Alþingi? Hvað yrði gert ef ég byggi til mitt eigið ættarnafn í dag?“, Vísindavefurinn 23.3.2001 (Skoðað 8.6.2014).
  6. http://www.althingi.is/altext/112/s/0828.html>[óvirkur tengill Frumvarp til laga um mannanöfn á 11. þingi, 1989–1990] Sjá: „Athugasemdir“
  7. Lög um mannanöfn, 1996 nr. 45 17. maí af vef Alþingis
  8. Mál nr. 02/2009 í fundargerð Mannanafnanefndar 2.1.2009
  9. „Jón Gnarr, „Nöfn", bakþanki, Fréttablaðið, 7. apríl 2005, bls. 40“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 29. mars 2007. Sótt 8. júní 2014.
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, 143. löggjafarþing 2013–2014
  11. Óttar Proppé mælir fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mannanöfn
  12. Athugasemd frá forstöðumanni Miðstöðvar Innflytjendarannsókna 2013

Tengt efni

breyta