Mannakorn

íslensk popphljómsveit

Mannakorn er íslensk popphljómsveit, sem gaf út sína fyrstu plötu 1975. Orðið Mannakorn kemur úr biblíunni og þýðir brauð af himnum eða orð guðs. Kjölfesta hljómsveitarinnar þá voru þeir: Magnús Eiríksson, aðal laga- og textahöfundur, sem lék á ýmsar gerðir gítara og söng. Pálmi Gunnarsson, bassleikari og aðalsöngvari. Baldur Már Arngrímsson, gítar, slagverk og söngur. Björn Björnsson, trommur og söngur. Auk þeirra var Vilhjálmur Vilhjálmsson gestasöngvari á plötunni ásamt Úlfari Sigmarssyni á píanó. Á fyrstu plötunni voru 12 lög og textar, flest/ir eftir Magnús nema Lilla Jóns sem er eftir Ray Sharp og Jón Sigurðsson og svo texti við Hudson Bay eftir Stein Steinarr.

Mannakorn - Upprunalegir meðlimir

Meðlimir

breyta

Plöturnar

breyta
 
Gegnum tíðina - Umslag: Kristján Frímann Kristjánsson

Önnur platan Gegnum tíðina kom út 1977 og geymdi tíu lög og texta eftir Magnús nema textann við Ræfilskvæði sem er eftir Stein Steinarr. Platan þótti marka tímamót í mörgum skilningi en með henni sannaði Magnús sig sem einn fremsta laga og textahöfund landsins. Platan þótti þjóðleg þótt hún væri poppuð og grípandi og umslagið vakti eftirtekt. Platan geymir meðal annars lagið Braggablús.

Braggablús. Texti og lag eftir Magnús Eiríksson.
Ein í bragga, Magga, gægist út um gluggann,
bráðum sér hún Skuggabaldur skunda hjá.
Enn einn túrinn, stúrinn, olíu á skúrinn
er erfitt nema fyrir fjandans aur að fá.
Í vetur, betur gekk henni að galdra
til sín glaða og kalda karla sem oft gáfu aur.
En Magga í sagga, situr ein í bragga
á ekki fyrir olíu er alveg staur.
Fyrst kom bretinn, rjóður, yndislega góður
þá bjó hún Magga á Borginni í bleikum kjól.
Svo kom kaninn, þaninn, kommúnistabaninn
þá kættist Magga ofsalega og hélt sín jól.
Svo færðist aldur yfir eins og galdur
og ávallt verra og verra var í karl að ná.
Nú er Magga stúrin því olíu á skúrinn
er erfitt nema fyrir fjandans aur að fá.
Ein í bragga Magga, gægist út um gluggann
bráðum sér hún Skuggabaldur skunda hjá.
Enn einn túrinn, stúrin, olíu á skúrinn
er erfitt nema fyrir fjandans aur að fá.
Í vetur betur gekk henni að galdra
til sín glaða og kalda karla sem oft gáfu aur.
En Magga í sagga situr ein í bragga
á ekki fyrir olíu er alveg staur.

Hljómsveitin Mannakorn mun hafa til þessa gefið út um ellefu plötur að talið er en síðasta eiginlega Mannakorns platan með frumkvöðlunum kom út 1979 og nefndist – „Brottför kl. 8“ og var hún sú þriðja í röðinni. Seinni plötur eins og „Í ljúfum leik“, 1985, „Mannakorn 5“ árið 1985 og „Mannakorn 6“ sem kom út 1990 eru skipaðar ólíkum tónlistarmönnum en þeir Magnús og Pálmi mynda enn kjölfestuna.