Magna Carta
Magna Carta er enskur lagabálkur sem upphaflega var gefinn út árið 1215. Nafnið er runnið úr latínu og þýðir „bálkurinn mikli“ (bókstaflega „blaðið mikla“). Magna Carta er markverð fyrir þær sakir að hún hafði mikil áhrif á þá löngu stjórnsýslusögu sem leiddi til nútímalagaumhverfis sem byggist á stjórnarskrárvörðum reglum og réttindum.
Magna Carta varð til í kjölfar ágreinings milli páfa, Englandskonungs og enskra baróna, sem varðaði réttindi konungsins. Magna Carta takmarkaði rétt konungsins og gerði honum skylt að lúta tilteknum lögum og reglum. Magna Carta, sem er í raun samansafn af ýmsum lagaskjölum, var uppfærð oftar en einu sinni á miðöldum, en í upphafi 19. aldar höfðu flest ákvæði hennar verið numin úr gildi. Engu að síður hefur hún áhrif enn í dag, því hugmyndir úr Magna Carta höfðu áhrif á smíð bandarísku stjórnarskrárinnar.