Lynn Margulis
Lynn Margulis (fædd Lynn Petra Alexander;[1][2] 5. mars 1938 - 22. nóvember 2011)[3] var bandarískur þróunarlíffræðingur, rithöfundur og kennari. Hún var helsti talsmaður samlífisþróunar í samtímanum. Sagnfræðingurinn Jan Sapp skrifaði að „Nafn Lynn Margulis er jafntengt samlífi og nafn Charles Darwin er tengt þróunarkenningunni.“[4] Margulis breytti núverandi skilningi á þróun fruma með kjarna (nokkuð sem Ernst Mayr kallaði „hugsanlega mikilvægasta atburðinn í sögu lífsins“[5]) með því að halda því fram að hún hafi verið afleiðing af samlífissamruna baktería. Margulis var einnig meðhöfundur Gajutilgátunnar ásamt breska efnafræðingnum James Lovelock, sem hélt því fram að jörðin virkaði sem eitt sjálfstýrt kerfi, og var einn helsti stuðningsmaður fimm ríkja flokkunar Robert Whittaker.
Allan feril Margulis átti starf hennar til að vekja mikla andstöðu (ein styrkumsókn frá henni fékk viðbrögðin „Rannsóknir þínar eru bull. Slepptu því að sækja hér um aftur.“[4][6]) og tímamótagrein hennar, „On the Origin of Mitosing Cells“, birtist árið 1967 eftir að hafa verið hafnað af um fimmtán tímaritum.[7] Þegar hún var enn ungur kennari við Boston-háskóla, var kenning hennar um að frumulíffæri, eins og hvatberar og grænukorn, hefðu eitt sinn verið sjálfstæðar bakteríur, að mestu hunsuð í á annan áratug og varð ekki almennt viðurkennd fyrr en hún var staðfest með erfðafræðirannsóknum. Margulis var kjörin meðlimur Bandarísku vísindaakademíunnar árið 1983. Bill Clinton forseti afhenti henni National Medal of Science árið 1999 og Linnean Society of London veitti henni Darwin-Wallace-verðlaunin árið 2008.
Margulis var harður gagnrýnandi nýdarwinisma. Afstaða hennar skapaði ævilanga deilu við leiðandi nýdarwiníska líffræðinga eins og Richard Dawkins,[8] George C. Williams og John Maynard Smith.[4] Kenningar Margulis um innanfrumusamlífi áttu sér fyrirrennara, allt aftur á miðja 19. öld; einkum Andreas Franz Wilhelm Schimper, Konstantin Mereschkowski, Boris Kozo-Polyansky (1890–1957) og Ivan Wallin. Margulis stuðlaði ekki aðeins að aukinni viðurkenningu framlags þeirra, heldur sá hún sjálf um fyrstu ensku þýðinguna á bók Kozo-Polyansky, sem kom út ári fyrir andlát hennar. Mörg af helstu verkum hennar sem ætluð voru almennum lesendahópi, voru samin með syni hennar Dorion Sagan.
Árið 2002 útnefndi tímaritið Discover Margulis eina af 50 mikilvægustu vísindakonum heims.
Tilvísanir
breyta- ↑ Weber, Bruce (24. nóvember 2011). „Lynn Margulis, evolution theorist, dies at 73“. The New York Times. Sótt 25. júlí 2014.
- ↑ Lake, James A. (2011). „Lynn Margulis (1938–2011)“. Nature. 480 (7378): 458. Bibcode:2011Natur.480..458L. doi:10.1038/480458a. PMID 22193092.
- ↑ Schaechter, M (2012). „Lynn Margulis (1938–2011)“. Science. 335 (6066): 302. Bibcode:2012Sci...335..302S. doi:10.1126/science.1218027. PMID 22267805.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Sagan, Dorion, ritstjóri (2012). Lynn Margulis: The Life and Legacy of a Scientific Rebel. White River Junction: Chelsea Green. ISBN 978-1603584470.
- ↑ Mayr, Ernst (2001). What Evolution Is. New York, NY: Basic Books. bls. 48. ISBN 978-0-465-04426-9.
- ↑ „Lynn Margulis“. The Telegraph (bresk enska). 13. desember 2011. Sótt 9. mars 2021.
- ↑ Margulis, Lynn, Gaia Is a Tough Bitch Geymt 22 nóvember 2017 í Wayback Machine. Chapter 7 in The Third Culture: Beyond the Scientific Revolution by John Brockman (Simon & Schuster, 1995)
- ↑ Gilbert, Scott F.; Sapp, Jan; Tauber, Alfred I. (2012). „A Symbiotic View of Life: We have never been individuals“. The Quarterly Review of Biology. 87 (4): 325–341. doi:10.1086/668166. PMID 23397797.